Skorað hefur verið á Einar Þorsteinsson borgarfulltrúa og fyrrverandi borgarstjóra að bjóða sig fram til formanns Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, tilkynnti á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins á Hilton Reykjavík Nordica Hótel í dag að hann sækist ekki eftir endurkjöri. Landsþing Framsóknarflokksins verður á nýju ári.
Í samtali við mbl.is viðurkennir Einar að hann hafi fengið áskoranir frá flokksmönnum um að bjóða sig fram. Segir hann að grasrót flokksins komi til með að stýra því hver takið við forystunni og telur farsælast að þeir sem gegni forystuhlutverkum innan flokksins í dag hlusti á almenna flokksmenn, sérstaklega þegar flokkurinn stendur á tímamótum.
„Ég hef aldrei vikist undan ábyrgð ef menn vilja færa mér hana en fyrst og fremst er hugur minn nú við sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Stærsta og mikilvægasta verkefnið í augnablikinu er að koma núverandi meirihluta frá völdum og knýja fram breytingar í þágu borgarbúa.“
Einar segir mikilvægt að anda í kviðinn eftir tíðindi dagsins og segist hafa mikla trú á framtíð flokksins.
„Mér þykir vænt um Framsókn og það er mikilvægt að við réttum úr kútnum, því erindi okkar í stjórnmálum er afar brýnt,“ segir hann. Hann leggur áherslu á að Framsókn sé miðjuflokkur sem hafi skapað festu í íslenskum stjórnmálum í 109 ár og að það hlutverk sé áfram grundvallaratriði.
Segist Einar þeirrar skoðunar að formaður flokksins þurfi að vera í góðum tengslum við þingflokkinn.
Hvað þýðir það? Getur ekki einhver utan þings verið í góðum tengslum við þingflokkinn?
„Jú, sannarlega og það eru margar leiðir í dag til að eiga samtal við landsmenn um það sem gerist á Alþingi. Nú þurfum við einfaldlega að leyfa umræðunni að þroskast og taka stöðuna þegar fram líða stundir.
Flokksþingið er áætlað í febrúar þannig að það er nægur tími til þess að eiga samtal við grasrótina,“ segir Einar.