Formannsframboð ekki á dagskrá

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta eru stór tíðindi og það er mikill missir af Sigurði Inga í þessu hlutverki,“ segir Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Segir hún formannsframboð ekki á sinni dagskrá.

Sigurður Ingi Jóhannsson tilkynnti á haustfundi miðstjórnar flokksins í dag að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður flokksins á flokksþingi hans í febrúar.

Beitir sér fyrir málefnunum

Halla Hrund segir að á hennar dagskrá sé ekki að bjóða sig fram til formanns flokksins.

„Það sem ég ætla að beita mér fyrir eru málefnin; auðlindamálin, umhverfismálin, íslenskan og málefni barna. Við verðum að passa upp á eignarhald auðlindanna okkar og að nýta þær með skynsömum hætti.

Ég hef líka lagt sérstaka áherslu á íslenskuna og að við náum betur utan um samheldni í samfélaginu.

Ég er málsvari barna á þingi og tek því hlutverki mjög alvarlega, hvort sem það snýr að líðan þeirra, samfélagsmiðlanotkun eða málum sem tengjast ofbeldi. Hjarta mitt slær fyrir þessum málefnum,“ segir Halla.

Þú tekur þá ekki slaginn?

„Ég hef engu við þetta að bæta. Hjarta mitt slær fyrir málefnin,“ segir Halla sem hvorki játar því né neitar að hún muni að endingu bjóða sig fram til embættis formanns flokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson lætur af embætti formanns Framsóknarflokksins í febrúar.
Sigurður Ingi Jóhannsson lætur af embætti formanns Framsóknarflokksins í febrúar. mbl.is/Ólafur Árdal

Mikill missir af Sigurði Inga

Þingmaðurinn segir Sigurð Inga, fráfarandi formann Framsóknarflokksins, öflugan leiðtoga, góðan vin og leiðbeinanda, sem hafi reynst bæði flokknum og samstarfsfólki sínu einstaklega vel.

„Sigurður Ingi hefur reynst mér ótrúlega vel og það er mikill missir af honum. Hann hefur leitt Farmsóknarflokkinn og verið í leiðtogahlutverki fyrir land og þjóð í stórum verkefnum eins og eldhræringunum á Reykjanesskaga, stríðinu í Úkraínu og í gegnum Covid. Hann er gríðarlega reynslumikill leiðtogi sem hefur verið einstakt að vinna með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert