„Ég er ekki búinn að fylgjast neitt með síðustu mánuði eftir að mér var hent út af Facebook,“ segir dr. Bjarni Már Magnússon, lagaprófessor á Bifröst og einn fremsti sérfræðingur landsins á sviði hafréttar eins og lesendum Morgunblaðsins og mbl.is var vottað í vikunni þegar þessir miðlar minntust 50 ára af 200 sjómílna fiskveiðilögsögu landsins með ítarlegri umfjöllun.
Hafréttarmál þjóða eru hins vegar eitt á meðan réttarstaða lagaprófessorsins gagnvart samfélagsmiðlinum Facebook og eiganda hans, Meta, er allt annar handleggur en eins og fyrr kemur fram hefur hinn stafræni og lógaritmíski dómstóll fyrirtækisins, sem á sér engan réttarsal, bannfært hafréttarsérfræðinginn og þykir tvísýnt að þeim dómi fáist áfrýjað eftir því sem Bjarni kemst næst.
Hann þarf nefnilega að sýna Facebook fram á að hann sé orðinn þrettán ára sem ætlar að verða þrautin þyngri þótt prófessorinn eigi aðeins fjögur ár í fimmtugt.
„Þetta er þannig að elsti sonur minn á svokölluð Meta VR-þrívíddargleraugu og af því að þau eru frá Meta þarf að tengja þau við Facebook-aðgang sem hann er ekki með svo ég setti þetta bara á minn aðgang,“ segir Bjarni, góður og gegn fjölskyldufaðir sem er boðinn og búinn að aðstoða börn sín eftir fremsta megni.
Góðmennskan kom honum hins vegar rækilega í koll í þetta sinnið.
„Svo er konan mín að reyna að stofna einhvers konar aukaaðgang fyrir átta ára son okkar, sem tengist mínum aðgangi, svo hann geti notað gleraugun líka, og skráir að hann sé átta til tíu ára, svo hann fái nú efni við hæfi og allt það. Nema hvað að þá er mér hent út af Facebook og Instagram af því að maður þarf að vera þrettán ára eða eldri og af því að mér var hent út get ég ekki sýnt fram á það,“ segir Bjarni og getur ekki varist hlátri.
„Ég er búinn að reyna þetta en það gengur ekki neitt – en veistu hvað? Mér finnst þetta alveg frábært,“ heldur Bjarni áfram og skýrir frábærleikann fyrir blaðamanni.
„Ég veit ekkert hvað er að gerast eða hvað fólk er að suða um, ég er dottinn út úr öllu foreldrastússi í skólum og öllum íþróttasamskiptum, nú er konan mín bara þar,“ segir prófessorinn glaðhlakkalegur áður en hann kemur að rúsínunni í pylsuendanum.
„Ég er ekki lengur meðvitaður um hvað fólk er að röfla um og mér finnst það svo gott,“ segir hann. „Þetta hefur svo mikil áhrif á líf manns, allir þessir hópar til dæmis og samskipti við fólk sem er ekki endilega í hópi manns nánustu. Allir sem þurfa að ná í mig ná í mig og þetta síast þá út þannig að allir sem þurfa raunverulega að hafa samband við mig hafa samband, nú fæ ég bara alvöruerindi til mín,“ segir hann og fer yfir í hinn sálfélagsfræðilega þátt samfélagsmiðla.
„Þetta rammar líka svo inn hugsun manns, það fór ég að uppgötva þegar ég var laus við Facebook. Það sem sveimar um í höfðinu á manni, oftast aftarlega þó, er oft eitthvað sem maður hefur rekist á á samfélagsmiðlum þannig að mér finnst ákveðin hugmyndahreinsun, eða tiltekt, fylgja þessu,“ segir Bjarni.
Hann var meðal frumbyggja á Facebook, stofnaði sinn aðgang þegar samfélagsmiðillinn var enn að mestu bundinn við háskólastúdenta í Bandaríkjunum en skartar árið 2025 rúmlega þremur milljörðum virkra notenda hér á jörð.
„Ég byrjaði árið 2006 þegar ég var í háskóla í Bandaríkjunum og svo allt í einu fara einhverjar frænkur að birtast þarna,“ segir Bjarni kíminn en Facebook varð æ stærri hluti af daglegu lífi hans eftir því sem fram liðu stundir og nýlegt dæmi hans snýr að því að hann gat ekki með nokkru móti tilkynnt endanlega um forföll sín á svokölluðu bumbuboltamóti í körfubolta þar sem honum hafði verið útskúfað fyrir að vera ekki orðinn þrettán ára.
„Þarna varð ég dálítið pirraður reyndar, en svo uppgötvaði ég snilldina við að vera laus við þetta. Ég hef verið í viðtölum við fjölmiðla vegna máls Möggu Stínu [íslensku tónlistarkonunnar og aðgerðasinnans sem lenti í klóm ísraelsks hervalds með Frelsisflotanum] og ég var ekkert meðvitaður um að það væri allt tjúllað á Facebook út af því, ég vissi ekkert hver viðbrögðin voru við því sem ég sagði og mér finnst það alveg frábært,“ segir prófessorinn og gleðin í rödd hans leynir sér ekki.
Gegnum tíðina segist Bjarni á köflum hafa fundið fyrir neikvæðni vegna mála sem hann tjáir sig um í fjölmiðlum. „Ég segi eitthvað þar sem fræðimaður og svo verður allt brjálað og nú er ég alveg laus við það, til dæmis að ókunnugt fólk sé að senda mér einhver hnýfilyrði á Messenger,“ útskýrir hann.
„Nú eru skólar og íþróttafélög að reyna að færa sig meira af þessum miðlum en það er mjög merkilegt hvað Facebook er alltumlykjandi. Það besta við þetta allt saman er að ég er ekki meðvitaður um af hverju ég er að missa þannig að ég upplifi þetta sem mjög góða tilfinningu,“ segir Bjarni sem nú er á hálfgerðu skilorði hjá Meta – skilorði sem þó lýkur ekki með sama hætti og í refsivörslukerfinu þar sem iðrandi brotamaður gerir upp sekt sína fyrir guði og mönnum og er tækur í mannlegt samfélag á ný.
„Ég hef núna 90 daga frest og svo er mér bara eytt út af Facebook. Ég á að sanna aldur minn, sem ég get ekki, til þess hef ég reynt ýmsar leiðir og það er dálítið gaman fyrir mig að lenda í þessu þar sem oft er talað um að fólk njóti ýmissa réttinda og hafi svo enga leið til að skjóta máli sínu eitthvað. Í einræðisríkjum hljómar regluverkið oft upp á frábær mannréttindi en svo hefurðu enga leið til að láta reyna á þau,“ segir prófessorinn og tengir Facebook-mál sitt þannig við lögfræðina.
Muntu þá þurfa að stofna þig á ný á Facebook og byrja þar frá grunni?
„Já, mér sýnist það verða niðurstaðan. Ég sá einhvers staðar að hægt væri að fara með svona mál fyrir persónuvernd Írlands af því að alþjóðlegu höfuðstöðvar Facebook eru á Írlandi og ef ég stofnaði mál þar þyrfti ég að sýna fram á aldur minn sem þar með yrði staðfestur í því máli. Ég hef bara engan tíma til að standa í einhverju svoleiðis,“ viðurkennir viðmælandinn fúslega og kveður upp lokaúrskurð í skoðun sinni á málinu:
„Mér finnst bara merkilegt hvað Facebook getur orðið mikil þungamiðja í tilverunni,“ segir dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor í lögum við Háskólann á Bifröst, brottrækur úr umfangsmestu samskiptamaskínu veraldar í skugga þess að geta ekki sýnt fram á að hafa náð þrettán ára aldri.