„Við erum að skoða þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd og það er að teiknast upp mjög dökk mynd. Það er augljóst að þeir sem settu þetta innviðagjald á hafa ekki áttað sig á afleiðingunum,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, í samtali við Morgunblaðið, en viðbragða hennar var leitað við fyrirsjáanlega miklum tekjusamdrætti víða um land vegna fyrirsjáanlegrar fækkunar í komum skemmtiferðaskipa hingað til lands. Ástæðan er mikil hækkun svokallaðs innviðagjalds sem leggjast á hvern farþega skipanna.
Gjaldið nemur nú 2.500 krónum á sólarhring og leggst á hvern og einn farþega, en ætlunin er að lækka það um 500 krónur á næsta ári, skv. frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga, svokölluðum bandormi, sem nú liggur fyrir Alþingi. Eigi að síður er gjaldið mun hærra en sambærilegt gjald í nágrannalöndunum, þ.e.a.s. þar sem það er innheimt.
Hún bendir á að gjaldið hafi verið lagt á í tíð síðustu ríkisstjórnar en verið sé að skoða hvaða leið sé hægt að fara til að bregðast við því ástandi sem upp er komið.
„Myndin sem við sjáum verða til er mjög dökk. Við sjáum líka að áhrifin af gjaldtökunni eru mjög víðtæk. Þau eru ekki bara á hafnirnar, heldur á samfélagið í þessum byggðum. Við erum að fara yfir málið í nefndinni og áhrifin eru ekki bara í mínu kjördæmi, heldur úti um allt land,“ segir Arna Lára og nefnir Borgarfjörð eystri, Djúpavog og Seyðisfjörð sem dæmi um slíkt.
Það hversu innviðagjaldið var lagt bratt á hefur sætt gagnrýni og sagt er að fyrirsjáanleika hafi skort. Spurð hvort unnt sé að vinda ofan af málinu segir Arna Lára að verið sé að skoða hvaða kostir séu í þeirri stöðu.
„Gjaldið er komið á, var samþykkt á Alþingi í desember á síðasta ári og tók gildi 1. janúar, þannig að fyrirsjáanleikinn var enginn. Við í nefndinni höfum verið að taka á móti fulltrúum hafnanna og einnig aðilum í ferðaþjónustunni og það er samdóma álit þeirra að fyrirsjáanleika hafi skort,“ segir hún.
Spurð hvort til greina komi að hennar mati að falla frá innheimtu innviðagjaldsins segir Arna Lára að hvað sig varði segi hún nei. „Það er af því að mér finnst eðlilegt að skemmtiferðaskip borgi innviðagjald, en mitt mat er að of bratt hafi verið farið,“ segir Arna Lára og bætir við að m.a. þurfi að ræða þá staðreynd að innviðagjaldið sé mun hærra hér á landi en í nágrannalöndunum.
Hún segir að efnahags- og viðskiptanefnd hafi borist fjölmargar umsagnir um þetta mál og verið sé að vinna úr þeim sem og að verið sé að taka á móti gestum.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
