Mennta- og barnamálaráðherra telur að meðferðarstofnunin í Suður-Afríku, þar sem íslensk börn eru í meðferð við fíknivanda, uppfylli ekki staðla um meðferðarúrræði fyrir börn hvorki hér á landi né á Norðurlöndunum.
Hann viðurkennir þó að hafa ekki kynnt sér meðferðarúrræðið í þaula en hefur kallað eftir frekari upplýsingum, meðal annars tölfræði yfir það hvað margir ná bata.
Ráðherrann segir það því ekki standa til að senda börn til útlanda í meðferð á vegum ríkisins, hvorki til Suður-Afríku né annað. Verið sé að byggja upp úrræði hér á landi og með heildarendurskoðun á barnaverndarlögum verði meðal annars hægt að gera ríkari kröfur um leit á börnum og draga þannig úr flæði fíkniefna inn á meðferðarheimilin. Ekki komi til greina að bjóða upp á lokuð úrræði fyrir börn hér á landi, en verið sé að skoða hvaða leiðir er hægt að fara án þess að skerða réttindi þeirra.
Ítrekað hefur verið fjallað um það á mbl.is að íslenskir foreldrar leiti með börn sín til Suður-Afríku í meðferð vegna úrræðaleysis hér heima. Ekkert langtímameðferðarúrræði fyrir drengi hefur verið starfrækt hér á landi í eitt og hálft ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl í fyrra. Til stendur að opna heimilið á nýjum stað í Gunnarsholti í Rangárþingi um áramótin.
Ingibjörg Einarsdóttir, sem hélt til Suður-Afríku með 14 ára son sinn á miðvikudag, ásamt annarri móður og syni hennar, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að drengurinn gæti ekki beðið svo lengi. Hann væri nú þegar búinn að bíða of lengi og vandi hans væri það alvarlegur að hún óttaðist að hann myndi ekki hafa það af. Hann þyrfti meira afgerandi inngrip en væri boðið upp á hér á landi. Hann hefur ítrekað strokið bæði af Stuðlum og Blönduhlíð og var í neyslu allan þann tíma sem hann var vistaður á heimilum.
Þá á lýsti María Sif Ericsdóttir, móðir 16 ára drengs, sem hefur verið á meðferðarstofnuninni í Suður-Afríku í tvo og hálfan mánuð, mjög jákvæðum breytingum á honum á skömmum tíma, í viðtali á mbl.is í á sunnudag. Hann væri í fyrsta skipti farinn að taka ábyrgð á sjálfum sér og horfa til framtíðar. „Brosið er orðið einlægt,“ eins og María orðaði það í viðtalinu.
Fyrstu þrjár vikurnar í meðferðinni fékk drengurinn ekki að eiga samskipti við neinn utanaðkomandi, ekki einu sinni foreldra sína. María fékk bara talskilaboð frá ráðgjafanum hans með upplýsingum um hvernig gengi og hvar hann væri staddur.
„Þetta var ógeðslega erfitt fyrir hann. Hann var neikvæður og pirraður, en ástæðan fyrir því hann átti ekki að hafa samskipti við umheiminn var til að sýna honum að þau myndu grípa hann og vera til staðar fyrir hann. Annað en á neyðarvistun hér heima, þá voru bara sautján símtöl yfir daginn.“ Nú fær hann tíu mínútna símtöl við foreldra sína í hverri viku og sagðist María sjá jákvæðar breytingar á honum í hvert skipti. Þá heimsótti hún drenginn á dögunum sagðist hafa fundið að hann væri á réttum stað. Hún sæi ekki eftir ákvörðin sinni.
Um er að ræða níu til tólf mánaða meðferð á meðferðarstofnunni Healing Wings í nágrenni Nelspruit í Suður-Afríku.
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, vill ekki meina að það sé áfellisdómur yfir kerfinu hér á landi að foreldrar þurfi að grípa til þess örþrifaráðs að fara með börn sín í kostnaðarsama meðferð í útlöndum.
„Ég neita því að þetta sé áfellisdómur yfir kerfinu í heild sinni því ég veit að þetta kerfi hefur hjálpað fullt af börnum og ég veit það af eigin reynslu að það er verið að hjálpa börnum. Þannig að taka allt kerfið fyrir þetta er ekki sanngjarnt gagnvart því fólki sem er virkilega að leggja sig fram um að hjálpa þessum börnum,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
„En það eru þessi erfiðu tilfelli sem við erum að eiga við. Það er átakanlegt að þau þurfi að fara til útlanda með börnin sín og ég skil angist þessara foreldra, en við verðum að fara að lögum. Samkvæmt lögum á Íslandi þá erum við ekki að loka börn inni,“ segir hann jafnframt.
Neyðarvistun Stuðla er það úrræði hér á landi sem kemst næst því að vera lokað, en það er notað til að taka börn úr umferð í skamman tíma.
Guðmundur bendir á að hægt sé að hafa börn í neyðarvistun á Stuðlum í sjö daga, en áður hafi það verið fjórtán dagar. Nú sé unnið að því að lengja tímann aftur upp í fjórtán daga. Hámarksvistunartími var styttur í kjölfar brunans sem varð á Stuðlum í október í fyrra, þar sem fækka varð rýmum.
Aðspurður hvort að það sé ekki nauðsynlegt að bjóða upp á lokaðra úrræði fyrir börnin með þyngsta vandann segir Guðmundur það ekki koma til greina.
„Við verðum að fara bæði eftir lögum á Íslandi og alþjóðalögum og samkvæmt sérfæðingum þá hefur verið sýnt fram á að ef börn þurfa að vera lengur frá foreldrum en í þrjá mánuði þá getur það valdið andlegu álagi og veikindum og komið í veg fyrir að þau geti aðlagast samfélaginu á ný,“ segir hann og heldur áfram:
„Þetta kemur frá sérfræðingum og mér ber að fara eftir því. Ég hef ekki og vona að ég hafi aldrei það vald að taka ákvörðun um að svipta barn frelsi og loka það inni heilt í ár,“ segir hann og vísar þar til meðferðarúrræðisins í Suður-Afríku.
„Ég er að reyna að kynna mér hvernig aðbúnaðurinn er og hvernig þetta fer fram. Ég hef fengið smá beinagrind af því og tel þetta ekki uppfylla þá staðla sem við erum með á Norðurlöndunum.“
Hvað er helst sem gerir það að verkum?
„Börnin verða þarna í heilt ár og þau fá eitt símtal við foreldra sína á viku undir eftirliti. Þetta myndum við aldrei líða hér.“
Meðal þeirra upplýsinga sem Guðmundur hefur óskað eftir um meðferðarstofnunina í Suður-Afríku er tölfræði yfir hve margir hafa náð bata.
Guðmundur segir að með breytingum sem stendur til að gera á barnaverndarlögum verði hægt framkvæma ítarlegri leit á börnum þegar þau koma inn á meðferðarheimili og sporna þannig betur gegn því að fíkniefnum sé smyglað inn á heimilin.
„Við verðum að fara að lögum og reglum. Þetta eru börn og þau hafa sinn rétt og við verðum að passa okkur að brjóta ekki þann rétt. En við erum að reyna að finna út hvað við getum gengið langt án þess að brjóta á mannréttindum þeirra. Það er meðal annars það að leita að fíkniefnum sem mér finnst bara sjálfsagt. Þegar þú ert kominn í svona úrræði þá á það að vera, en við þurfum að gera það samkvæmt lögum og reglum.“
Aðspurður hvort það kæmi til greina að senda börn úr landi í meðferð á aðrar meðferðarstofnanir en þessa í Suður-Afríku, á meðan engin eða takmörkuð úrræði eru til staðar, svarar Guðmundur neitandi.
„Við erum að setja allt á fullt. Gunnarsholt er að koma, við erum að stefna að því um áramótin en erum að reyna að flýta því. Um leið og Gunnarsholt kemur inn þá geta átta drengir farið þangað. Þá verða Stuðlar teknir algjörlega í nefið og þar verða 11 til 13 rými. Þá verður hægt að aðskilja kyn og aldur. Það er forgangsverkefni,“ segir Guðmundur.
„Ég er búinn að vera að skoða alla möguleika,“ bætir hann við og bendir á að stuðningsheimili hafi nýlega verið opnað í Blönduhlíð í Mosfellsbæ fyrir börn sem lokið hafa meðferð á meðferðarheimilum en geta ekki snúið heim til sín af einhverjum ástæðum. Það létti líka á álaginu.
„Við erum að gera allt sem við getum en vandinn hefur verið að stigmagnast frá árinu 2017. Því miður er staðan svo að við höfum látið þetta „danka“ í einhver ár og svo kem ég inn í ráðuneytið og sé að það er eitthvað skrýtið við þetta, þannig við erum komin á fullt með að hnýta alla þessa lausu enda. “
Framkvæmdir á Stuðlum verða boðnar út um áramótin, en áður hafði verið talað um að það yrði gert á haustmánuðum. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir taki að minnsta kosti allt næsta ár, en þær verða gerðar í áföngum svo ekki á að koma til lokunar, að sögn Guðmundar.