Verð á mat á veitingastað Ikea í Garðabæ hefur hækkað mikið síðustu misseri. Ef skoðaðir eru réttir mánaðarins má sjá að verðhækkanir nema allt að 42% á tímabilinu frá febrúar 2023 og fram til dagsins í dag. Framkvæmdastjóri Ikea segir verðhækkanir á hráefni og hærri launakostað skýra þetta.
Morgunblaðið kannaði verð á tveimur réttum sem reglulega eru kynntir á facebooksíðu Ikea, annars vegar ýsu í orly og hins vegar kjúklingaborgara. Báðum réttunum fylgir meðlæti.
Í febrúar 2023 kostaði ýsa í orly 1.195 krónur en í síðasta mánuði var verðið komið upp í 1.695 krónur. Þetta er verðhækkun upp á 42%. Verðið hefur hækkað þrisvar frá því í október í fyrra.
Í febrúar 2023 kostaði kjúklingaborgari 1.295 krónur. Í september síðastliðnum kostaði sami réttur 1.795 krónur. Nemur þessi verðhækkun 39%.
Veitingastaður Ikea er síður en svo eini veitingastaður landsins þar sem verð hefur verið hækkað til að mæta miklum kostnaðarhækkunum við aðföng og laun. Þessar miklu hækkanir vekja hins vegar athygli enda hefur staðnum gjarnan verið hampað fyrir hagstætt verð. Verðhækkanirnar eru talsvert umfram verðlagshækkanir. Ef verð á ýsu í orly í febrúar 2023 er slegið inn í verðlagsreiknivél Hagstofunnar má sjá að verðið í dag ætti að vera 1.363 krónur. Verðið á kjúklingaborgara ætti með sömu forsendum að vera 1.477 krónur.
„Ástæða þessa er hráefnisverð númer eitt, tvö og þrjú. Launahækkanir hafa líka haft áhrif,“ segir Stefán Rúnar Dagsson framkvæmdastjóri Ikea.
„Við höfum gert allt til að halda verðinu niðri en nú var komið að því að hækka. Þetta var bara komið á núllið. Aftur á móti er staðan þó enn sú að þú finnur þetta verð ekki annars staðar,“ segir Stefán.
Hann tekur sem dæmi um þær hækkanir sem hafi dunið á að í hitteðfyrra hafi innkaupsverð á hangikjöti og öðrum jólamat hækkað um 45% milli ára. Þá hafi fyrirtækið haldið verði óbreyttu. „En svo fengum við hækkun aftur núna og þá urðum við að gera eitthvað til að fara ekki að tapa á þessu.“
Stefán segir að sér finnist mjög leitt að þurfa að grípa til verðhækkana enda sé Ikea ekki þekkt fyrir að breyta verði oft. „Við gerum allt til að lækka kostnað. Þegar við kaupum inn fyrir þessa tímabundnu rétti sem þú vísar til fáum við tilboð frá öllum aðilum sem hafa getu til að þjónusta okkur út af magninu. Við gerum auðvitað ákveðnar gæðakröfur, þetta þarf að vera gott hráefni svo það er ekki alltaf hægt að láta bara verðið ráða.“
Veitingastaður Ikea er afar vinsæll og því þarf mikið hráefni til að þjónusta gesti. „Það er alveg svakalegt magn á bak við þetta hjá okkur og fyrir vikið getum við náð verðinu niður. Við seljum til dæmis um níu tonn af kalkúni fyrir jólin og kjötbollurnar hlaupa á hundruðum tonna á ári.“
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
