Flugvél með kennurum snúið við nærri Færeyjum

Starfsmenn Isavia vinna að því að afísa flugvélar á Keflavíkurflugvelli.
Starfsmenn Isavia vinna að því að afísa flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Ljósmynd/Aðsend

Rúmur helmingur starfsliðsins í Menntaskólanum í Reykjavík er veðurtepptur annars vegar í París og hins vegar í Frankfurt. Kennarar, námsráðgjafar og fleira starfsfólk skólans notaði vetrarfríið til að fara í skólaheimsókn til Parísar en hluti hópsins lagði af stað til Íslands í gær í gegnum Frankfurt.

Sólveig Guðrún Hannesdóttir, rektor MR, var í vélinni frá Frankfurt til Íslands.

Ekki hægt að lenda

„Við vorum komin inn í lofthelgi Íslands þegar flugvélinni var snúið við í gær. Vorum búin að millilenda í Frankfurt og vorum bara að fljúga inn þegar einhver tilkynning kom um að þeir væru að snúa flugvélinni við og fljúga aftur til Frankfurt vegna þess að það var ekki hægt að lenda á Keflavíkurflugvelli,“ segir Sólveig Guðrún en vélinni var snúið við nærri Færeyjum.

Allt skólahald var fellt niður í MR í dag en þá átti að vera fyrsti kennsludagur eftir vetrarfríið.

Sólveig segir í samtali við mbl.is að einnig sé vitað af stórum nemendahópum erlendis, meðal annars í Kaupmannahöfn sem hafi ekki komist heim úr fríi.

„Ég var búinn að fá fréttir af fullt af bæði nemendum og fleira starfsfólki sem var veðurteppt víða. Bæði norður í landi og víðar á Íslandi og líka erlendis.“

Stefnt er að því að kennsla hefjist að nýju í MR á morgun.

Bæta krökkunum þetta upp

Setur þetta mikið strik í reikninginn í skólahaldinu heilt yfir?

„Nei nei, við vinnum þetta alveg upp. Við vorum í vetrarfríi þarna eða hausthléi á föstudag, mánudag og þriðjudag þannig að þetta er einn aukadagur. Við reynum að vinna út frá því að einhvern veginn bæta krökkunum þetta upp. Þetta kemur allt einhvern veginn á sama stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert