Ástæðu lokunar og innsiglis á veitingastaðnum Shanghai í Pósthússtræti má rekja til óþrifnaðar og óheilnæmrar geymslu matvæla.
Þannig gerði heilbrigðiseftirlitið 15 alvarlegar athugasemdir vegna óþrifnaðar og slæmrar umgengni í tengslum við meðferð matvæla sem sögð eru í skýrslu eftirlitsins „óásættanleg“ og að matvælaöryggi sé ógnað.
Þá gerði eftirlitið einnig 25 athugasemdir sem flestar tengjast óþrifnaði í starfsmanna- og bakrými staðarins.
Þetta kemur fram í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins þar sem ástæður lokunar eru tilgreindar.
Einar Oddur Sigurðsson, lögmaður rekstraraðila staðarins, segir að eigandi sé að vinna með heilbrigðiseftirlitinu og að stefnt sé að því að opna að nýju.
Fram kemur að heilbrigðiseftirlitið fór á staðinn í kjölfar kvörtunar. Hún beindist að óreiðu, óþrifnaði og slæmri meðferð á matvælum.
Við eftirlitið, sem stóð yfir í tvær klukkustundir, voru ábendingar kvörtunar staðfestar. Var staðnum lokað í samráði við eiganda staðarins eftir að eftirlitinu lauk og má ekki opna hann að nýju nema með leyfi eftirlitsins.
Eftirlitið leiddi í ljós fjölda alvarlegra frávika.
Meðal annars má nefna að handlaug starfsmanna var óaðgengileg, handsápubox ryðgað þannig að út kom ryð við notkun og skortur á handþvotti hjá starfsfólki.
Einnig fundust kælivörur geymdar utan kælis, þar sem mælt hitastig var yfir 20 gráðum. Þá var gerð athugasemd við að heill eldaður kjúklingur sem keyptur var heitur í Costco var látinn standa á borði án kælingar eða eftirlits.
Þá var frystivara geymd óvarin í frysti.
Fleiri dæmi voru um óviðeigandi geymslu matvæla, hrísgrjónum var haldið heitum undir handlaug sem ætluð er starfsmönnum, og frosin matvæli sem þídd voru við herbergishita.
Engar skráningar voru um hitastig kælingu eða innra eftirlit og skortur var á þekkingu starfsfólks á matvælaöryggi að því er fram kemur í skýrslunni.
Þá kemur fram að matvæli í geymslu hafi verið án rekjanleika. Uppruni matvælanna er því óþekktur.
Að sögn eftirlitsmanna var bakrými staðarins óhreint og illa lyktandi, gólf og veggir skítug og snertifletir sýnilega óhreinir.
Uppþvottavélar, ofnar og tækjabúnaður voru óhrein að utan sem innan, og viðarskurðarbretti með sprungum eru sögð óþrifvænleg í skýrslunni.
Þá lá fita úr loftræstikerfi, frystikistur voru fullar af hrími, og hrátt kjöt var geymt innan um ferskt grænmeti.
Einnig kom fram að notaðar umbúðir frá öðrum fyrirtækjum voru endurnýttar fyrir matvæli.