„Bíllinn vildi ekki gefa honum neinn séns. Svo byrjaði hann bara að keyra utan í hann.“
Þetta segir Pétur Jóhannesson í samtali við mbl.is, en hann varð vitni að átökum hjólreiðamanns og bílstjóra við Spöngina í dag. Náði hann þeim á upptöku sem má sjá hér að ofan.
Spurður hvers vegna hann hafi byrjað að taka upp segir Pétur að bílstjórinn hafi ítrekað keyrt utan í hjólreiðamanninn, þar sem hann reyndi að hjóla á götunni sökum slæmrar færðar.
Hann segir hjólreiðamanninn hafa verið hjólandi á götunni og að bílstjórinn hafi að líkindum reiðst yfir því að hann hafi ekki verið á gangstéttinni.
„Hann fer í hliðina á honum og ýtir honum út í kantinn,“ segir Pétur.
Á myndskeiðinu má sjá bílstjórann keyra utan í hjólreiðamanninn, sem bregst við með því að berja í hliðarspegilinn og því næst kýla inn í bílinn, í átt að bílstjóranum. Reiðhjól mannsins var á sama tíma fast undir bílnum.