Bjóða 50% afslátt og skella í lás þegar allt tæmist

Krambúðin í Urriðaholti mun bráðlega loka starfsemi sinni. Vert er …
Krambúðin í Urriðaholti mun bráðlega loka starfsemi sinni. Vert er að taka fram að ljósmyndin er tekin inni í Krambúðinni í Búðardal. Ljósmynd/Aðsend

Krambúðin í Urriðaholti í Garðabæ mun bjóða viðskiptavinum 50% afslátt af öllum vörum frá og með morgundeginum að undanskildu nikótíni og tóbaki. Versluninni verður svo lokað er lagerinn hefur tæmst.

Í samtali við mbl.is segir Svanur Valgeirsson, framkvæmdastjóri Krambúða og 10-11 hjá Samkaupum, að rekstur verslunarinnar hafi gengið erfiðlega, en um tvö ár eru síðan Krambúðin var opnuð í Urriðaholtinu.

Vilja fá viðskiptavini til að hjálpa að tæma búðina

„Við erum að tapa peningum þarna og það bara gengur ekki lengur. Þá er bara að reyna að moka þessu út og loka.“

Um 50% afsláttinn sem viðskiptavinum verður veittur segir Svanur að vissulega hafi verið hægt að færa vörur verslunarinnar annað, en að stjórnendum hafi þótt betri hugmynd að fá viðskiptavini til að aðstoða við að tæma búðina.

Bílastæði af skornum skammti 

Á meðal erfiðleika Krambúðarinnar í Urriðaholti voru bílastæðamál, að sögn Svans, en lítið er af bílastæðum í kringum verslunina.

„Það er alveg ljóst að þegar þú ert með Bónus og Costco í næsta nágrenni á einhverjum risastórum bílaplönum þá er auðvitað vont þegar kúnni kemur að planinu hjá okkur og fær ekki bílastæði. Þá er hann fljótur að fara eitthvað annað.“

Einbeita sér nú að hinum 20 verslununum

Síðan kaup Orkunnar á Samkaupum gengu í gegn í júlí hefur nú tveimur verslunum Krambúðarinnar verið skellt í lás, en ekki er langt síðan Krambúðin á Akureyri lokaði dyrum sínum fyrir fullt og allt.

Svanur segir verslanirnar tvær hafa verið dragbíta í rekstri keðjunnar. Með lokun þeirra verði hægt að einbeita sér að hinum 20 verslununum sem eru á vítt og dreif um landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert