„Lægð suðaustur af landinu veldur norðaustanstormi á morgun, 28 metrum á sekúndu í Öræfum, og verður hvassast á Suðausturlandi í fyrramálið,“ segir Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, um veðurhorfur á landinu á morgun.
Segir Marcel að síðdegis á morgun megi mest búast við 18 til 25 metrum á sekúndu norðvestan til á meðan úrkomuspá stofunnar geri ráð fyrir slyddu og síðar rigningu á morgun og megi búast við talsverðri eða mikilli úrkomu á austanverðu landinu.
„Eins spáum við hækkandi hitastigi sem veldur asahláku á austanverðu landinu ásamt rigningunni, á höfuðborgarsvæðinu má búast við tíu stiga hita síðari hluta dags á morgun,“ heldur veðurfræðingurinn áfram.
Bendir hann á að þegar rigna taki ofan í það mikla magn snævar sem nú hvílir á höfuðborgarsvæðinu myndist varhugavert ástand.
„Við það verður mjög hættulegt ástand með glerhálku á vegum og gangstéttum,“ eru varnaðarorð Marcels de Vries veðurfræðings fyrir morgundaginn.
