Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysi sem varð á Reykjanesbraut við Breiðholtsbraut þann 1. apríl þar sem ekið var á gangandi vegfaranda. Vegfarandinn, sem var 49 ára gamall karlmaður, lést í slysinu.
Fram kemur í skýrslunni að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að mikið magn áfengis hafi verið í blóði gangandi vegfarandans.
Þá segir jafnframt í niðurstöðukafla skýrslunnar að ökumaðurinn hafi veitt vegfarandanum athygli skömmu fyrir slysið en kvaðst ekki hafa getað varnað slysinu þrátt fyrir að hafa dregið mikið úr hraða þar sem vegfarandinn hafi skyndilega hlaupið út á Reykjanesbrautina og fallið í veg fyrir bifreið hans.
Þá segir að gangandi vegfarandinn hafi verið á leið meðfram Breiðholtsbraut til vesturs og kominn áleiðis að Reykjanesbraut skammt norðan við vegamótabrú yfir Reykjanesbraut. Vegfarandinn byrjaði að fara yfir Reykjanesbrautina en á þeim stað var engin gönguleið yfir akbrautirnar. Á sama tíma var Nissan-fólksbifreið ekið norðaustur Reykjanesbraut. Nissan-bifreiðinni var ekið á vinstri akrein og á gangandi vegfarandann sem var á leið þvert yfir akbrautina. Engin hemlaför voru eftir bifreiðina.
Slysið var tilkynnt til lögreglu kl. 14.42.
Ökumaður Nissan-bifreiðarinnar kvaðst hafa verið á leið norður Reykjanesbraut. Hann var nýbúinn að aka undir brúna á vinstri akrein við gatnamót Breiðholtsbrautar/Nýbýlavegar þegar hann varð var við gangandi vegfaranda í vegkantinum austan við Reykjanesbraut. Hann hafði hægt á bifreiðinni þegar hann sá manninn sem þá hafði skyndilega hlaupið út á akbrautina. Hann taldi að vegfarandinn hafi hrasað á leið yfir hægri akreinina en síðan staðið upp og haldið ákveðið áfram en hallandi fram inn á vinstri akreinina í veg fyrir bifreið hans.
Að sögn vitnis, sem ók sömu leið, var vegfarandinn á gangi meðfram vegkantinum við hægri akrein og hafi hann farið hratt út á götuna um leið og vitnið ók fram hjá honum, hrasað en náð undir sig fótunum en hrasað aftur og dottið í veg fyrir Nissan-bifreiðina.
Nokkur vitni, sem komu auga á vegfarandann þegar hann var á leið meðfram Breiðholtsbraut í vesturátt, höfðu haft samband við lögreglu fyrir slysið þar sem þau töldu viðkomandi ekki vera í líkamlegu ástandi til þess að vera þarna á ferð meðfram akbraut með háum leyfilegum
hámarkshraða og mikilli umferð. Vegfarandinn hafi verið reikull í spori og nokkrum sinnum verið nálægt því að detta inn á Breiðholtsbrautina þegar hann gekk meðfram henni.
Ekkert í niðurstöðu skoðunar sem framkvæmd var á skoðunarstöð eftir slysið benti til þess að rekja mætti orsakir slyssins til ástands bifreiðarinnar. Engar ákomur á bifreiðinni var hægt að rekja til slyssins.
Fram kemur í skýrslunni að gangandi vegfarandinn hafi ekki nýtt sér nálægar gönguleiðir sem voru til staðar heldur reynt að þvera akbrautir þar sem ekki er gert ráð fyrir þverun gangandi vegfarenda.
Bent er á að leyfilegur hámarkshraði sé 80 km/klst og mikil umferð er um Reykjanesbraut á þessum stað.