Leifarnar af fellibylnum Melissu, sem orðið hefur 50 manns að bana í hið minnsta, munu ganga yfir suðurströnd Íslands á morgun og þriðjudag í formi lægðar.
Að mati veðurfræðings er þó ekkert að óttast.
Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að hin væga lægð sem fellibylurinn skilur eftir sig muni valda litlum sem engum breytingum í veðri.
„Leifarnar af fellibylnum hafa ummyndast í þessa lægð sem gengur yfir landið sunnanvert á morgun og þriðjudag, en allur fellibylskrafturinn verður farinn úr henni svo hún verður lítið kraftmeiri en hver önnur lægð,“ segir Birgir.
Lægðin sé djúp í millibörum, en ekkert útlit sé fyrir veðurvonsku, hvað þá heldur veðurviðvaranir.
„Hún varð ekki eins og stundum verður þegar fellibylir ganga inn í venjulegar lægðir, en þá geta þær orðið mjög djúpar og valdið illviðrum. Það hefur ekki gerst núna, þetta virðist ætla að verða rólegheitaveður.“
