Bækur Halldórs Laxness eru með mikilvægustu bókmenntum íslensku þjóðarinnar. Bókmenntir eru menningararfur hinnar íslensku þjóðar, sem hefur engar sögulegar kirkjur eða byggingar til að státa sig af.
Þannig má segja að Notre Dame Íslendinga standi í ljósum logum, þegar rætt er um brotthvarf bóka Halldórs Laxness úr íslenskukennslu menntaskólanna.
Þetta er meðal þess sem Elínborg Una Einarsdóttir, blaðamaður, sviðshöfundur og bókaunnandi, segir í Dagmálum mbl.is.
„Mér finnst þetta alveg sambærilegt, þetta er mikill missir og við erum að missa eitthvað úr þjóðarsálinni. Bókmenntirnar hafa verið það sem hefur haldið okkur saman,“ segir hún.
Elínborg greindi frá því fyrr í mánuðinum að bækur Halldórs Laxness væru á hraðri útleið úr íslenskukennslu framhaldsskólanna. Innan við þriðjungur nemenda lesi skáldsögu eftir Laxness sem hluta af skyldunámi sínu í íslensku og þar af sé Sjálfstætt fólk aðeins lesin í fjórum skólum af 29. Kennarar segi orsökina vera minnkandi lesskilning, dvínandi orðaforða sem og breyttan tíðaranda.
Spurð álits á þeirri stöðu að einhverjir kennarar hafi gefist upp á að kenna bækur skáldsins vegna þess að nemendur væru hreinlega hættir að lesa heima, svarar Elínborg að hún geti vel trúað því að vegna minnkandi orðaforða og lesskilnings sé erfiðara að kenna þessar bókmenntir í dag.
Hún hafi þó einnig rætt við kennara sem séu mjög ósammála þeirri nálgun að gefast upp á að kenna bækurnar. Kennari í MH, þar sem Sjálfstætt fólk er enn þá kennd, hafi sagt að það sé ekkert nýtt af nálinni að einhverjir nemendur lesi ekki heima, það þýði ekki að kennarar eigi að gefast upp. Bækurnar tali enn þá við nemendur og flestir vilji þeir lesa. Með handleiðslu og góðri kennslu skilji þeir og tengi við bækurnar.
Elínborg segist hafa fylgst með umræðu um málið á netinu og séð þar færslu frá kennara sem sagði frá nemanda sem segðist hata hvað Sjálfstætt fólk væri þunglyndisleg bók, en nemandinn væri á sama tíma að lýsa hvað hún tengdi ótrúlega mikið við persónurnar og að hana langi að komast inn í bókina til að aðstoða Ástu Sóllilju.
„Það er eitthvað svo fallegt við það,“ segir Elínborg.
Lestur á ritum Laxness snúist ekki bara um að afgreiða þau af listanum heldur skipti hann máli af því að um sé að ræða stórkostlegar bókmenntir og ríkar djúpar persónur.
„Með því að lesa Laxness öðlast maður einhvern skilning á heiminum, maður er ekki að lesa þetta bara til að lesa þetta,“ segir Elínborg enn fremur.
Ef við hættum alveg að lesa Laxness, ef það er þróunin, erum við þá að týna einhverju úr þjóðararfinum, þjóðarsálinni, eða finnst þér þetta of dramatískt viðhorf?
„Nei, ég held ekki, af því að þetta eru bara einhverjar mikilvægustu bókmenntir þjóðarinnar. Það eru kannski Íslendingasögurnar sem eru enn þá mikilvægari í okkar menningarlífi, Njála og svona. En þetta virðist líka vera þróun þar sem við erum að missa tökin á þessu öllu. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál, af því að menningararfur okkar Íslendinga eru bókmenntirnar.
Eins og Halldór Guðmundsson, sem ritaði ævisögu Halldórs Laxness, sagði í viðtali við mig um þetta, við erum ekki með einhverjar kirkjur eða byggingar sem við getum státað okkur af en við getum bent á einhverja þúfu á Suðurlandi og sagt þarna gerðist Njála,“ segir Elínborg.
Menntaskólanemendur hafi margir ekki heyrt Laxness getið.
„Það er staðan núna, og þá er ég smá að hugsa hvort Notre Dame sé kannski bara að brenna,“ segir hún.
Brot úr þættinum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Áskrifendur geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér að neðan.