Bendir á „manngerðan flöskuháls“ við Leifsstöð

Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, rannsakaði aðgengi …
Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, rannsakaði aðgengi að Keflavíkurflugvelli og bar saman við eigendastefnu Isavia. Samsett mynd/mbl.is/Skapti/Eggert/Árni Sæberg

Aðkoma að Keflavíkurflugvelli er mjög mikill flöskuháls fyrir alla landsmenn og gagnast aðeins opinbera hlutafélaginu Isavia sem rekur flugvöllinn. Kostnaður við ferðalag út á flugvöllinn og að leggja þar getur stundum slagað upp í flugfargjöld.

Þetta er ekki í takti við viðauka við eigendastefnu ríkisins í Isavia þar sem tiltekið er að flugvallarkerfið eigi að vera „hluti öruggra og hagkvæmra samgangna innanlands og tengjast öðrum almenningssamgöngum á landi“.

Þetta segir Þóroddur Bjarnason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, en hann hefur rannsakað aðgengi að Keflavíkurflugvelli og borið saman við eigendastefnu Isavia.

Hann segir Isavia með þessu bregðast skyldum sínum, sóa tíma almennings og valda honum óþægindum.

Um 90% allra landsmanna sem fara í flug frá Keflavíkurflugvelli …
Um 90% allra landsmanna sem fara í flug frá Keflavíkurflugvelli fara þangað með einkabíl. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tekjulind frekar en hagkvæmar samgöngur

Þóroddur segir í samtali við mbl.is að engir raunhæfir samkeppnismöguleikar séu við Keflavíkurflugvöll. Ef Íslendingar ætli að fara út í heim sé flugvöllurinn með yfirburðastöðu og í raun einokunarstöðu.

Rekstur flugvallarins er í höndum opinbera hlutafélagsins Isavia og segir Þóroddur að félagið virðist líta á samgöngur til og frá flugvellinum sem tekjulind frekar en að tryggja öryggar og hagkvæmar samgöngur að flugvellinum, eins og fram komi í sérstökum viðauka við eigendastefnu Isavia.

Í viðaukanum er einnig komið inn á að starfsemin eigi að vera í sem mestri sátt við umhverfið og stuðla að umhverfisvænni þjónustu við flugvélar og farþega og lágmarka kolefnislosun.

Var umræddur viðauki settur í september árið 2021, en á sama tíma var almenn eigandastefna ríkisins fyrir öll félög í eigu ríkisins uppfærð.

Má segja að þessar tvær stefnur skarist að einhverju leyti þar sem í almennu stefnunni er talað um að félög í eigu ríkisins eigi að skila viðunandi arði að teknu tilliti til markaðsaðstæðna, áhættu, fjárfestingarþarfar og almannaþjónustuhlutverks þeirra. Þá skuli leitast við að hámarka langtímavirði eignarhluta ríkisins í félögum.

90% fara á einkabíl út á flugvöll

Þóroddur kynnti í Þjóðarspegli Háskóla Íslands nýja rannsókn sína um aðgengi að flugvellinum, en þar kemur meðal annars fram að 90% landsmanna fari á einkabíl til flugvallarins, annaðhvort með því að keyra sjálfir og leggja við flugstöðina eða þá þegar þeim er skutlað.

Bendir Þóroddur á að ef seinni leiðin sé valin þýði það í raun fjórar ferðir í stað tveggja fyrir ökumann, þ.e. tvisvar fram og til baka.

Ef horft er til landsbyggðarinnar segir Þóroddur að rannsóknin sýni að 80% íbúa á Akureyri fari með einkabíl á flugvöllinn. Hinir fljúgi flestir suður og taki svo flugrútuna til Keflavíkur. Hann bendir hins vegar á að engin bein tenging sé á milli Reykjavíkurflugvallar og BSÍ, þaðan sem flugrútan fer.

Af íbúum á Austurlandi keyra um 60% til Keflavíkur, en 40% fara með flugi til Reykjavíkur og svo flugrútunni til Keflavíkur.

Þóroddur segir að niðurstöðurnar sýni einnig að aðeins 0,5% til 1% farþega noti Strætó til að komast á flugvöllinn, en bæði séu litlar upplýsingar um ferðir Strætó á flugvellinum sjálfum og svo sé stoppistöð hans nokkurn spöl frá stöðvarbyggingunni.

„Þú kemst til Ítalíu fyrir 23 þúsund, en það kostar …
„Þú kemst til Ítalíu fyrir 23 þúsund, en það kostar um 20 þúsund að leggja í Keflavík í 10 daga eða 5 þúsund að fara með flugrútunni.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stór hluti af heildarferðakostnaði

„Þetta er manngerður flöskuháls sem er að búa til tekjur fyrir Isavia þvert gegn eigendastefnunni,“ segir Þóroddur til að lýsa stöðunni sem hann segir að byggð hafi verið upp af Isavia.

Hann segir að stundum hafi verið gripið til þeirrar röksemdafærslu að fyrirkomulagið sé svipað víða á flugvöllum erlendis.

Það standist aftur á móti enga skoðun þegar litið sé til flugvalla af sambærilegri stærð. Slíkir flugvellir séu alla jafna með annaðhvort góðar strætó- eða lestarsamgöngur, eða jafnvel bæði.

Þóroddur segir kostnað vegna ferðalags á flugvöllinn og bílastæðagjalda þar oft orðinn stóran hluta af heildarferðakostnaði. „Þú kemst til Ítalíu fyrir 23 þúsund, en það kostar um 20 þúsund að leggja í Keflavík í 10 daga eða 5 þúsund að fara með flugrútunni,“ segir hann.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins fara 2,5 skipti út á ári

Í rannsókn Þórodds er fleiri áhugaverðar niðurstöður að finna, en hann segir að meðal annars hafi hún leitt í ljós að af íbúum eldri en 18 ára fari íbúar höfuðborgarsvæðisins um 2,5 ferðir á ári til útlanda, en að íbúar utan höfuðborgarsvæðisins fari að meðaltali um eina ferð á ári út.

Hann segir að sem félagsfræðingur velti hann því fyrir sér hvaða máli þetta skipti. Þannig geti verri samgöngur fyrir fólk af landsbyggðinni haft áhrif á fyrirtæki og hvar byggist upp vinsæl atvinnusvæði.

Nefnir hann sem dæmi að fyrir háskólamenntað fólk með góðar tekjur geti það verið útsláttaratriði að velja að búa á landsbyggðinni, hversu auðvelt sé að komast á alþjóðaflugvöll.

„En svo kom út úr þessari vinnu hversu mikill flöskuháls það virðist vera að komast til Keflavíkur, ekki bara af landsbyggðinni heldur líka úr höfuðborginni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert