Þingflokksformaður Miðflokksins segir heimsendaspár varaformanns flokksins vera óþarfar.
Í viðtali í Kastljósi á RÚV í kvöld ræddi þáttastjórnandinn Baldvin Þór Bergsson við þau Jens Garðar Helgason, varaformann Sjálfstæðisflokksins, og Sigríði Á. Andersen, þingflokksformann Miðflokksins.
Meðal annars vék Baldvin Þór máls á því þegar Snorri Másson, nýkjörinn varaformaður Miðflokksins, ræddi um að hrun vestrænnar siðmenningar væri yfirvofandi. Vildi Baldvin vita hvort Sigríður deildi þeirri skoðun með varaformanninum.
„Nei, ég tek nú, nei hann getur nú verið skáldlegur og ég horfi í gegnum fingur mér gagnvart því. Það er alger óþarfi að vera með heimsendaspár í umræðu um þetta og ég veit ekki í hvaða samhengi hann var að setja þetta fram,“ svaraði Sigríður.
Hins vegar sagðist hún telja að kannski skýri það að Snorri tali til fólks á mannamáli hluta af fylgisöfnun Miðflokksins.
„Ég held nú að hann sjálfur sé nú ekki að meina að það verði eitthvað hrun í siðmenningu en hann er að benda á ákveðna þætti sem mönnum finnst áhugavert að fá að minnsta kosti að ræða.“
