Fáar einkaleyfisumsóknir hafa borist Hugverkastofunni frá íslenskum aðilum um endurnýjanlega orku og jarðvarma síðustu tvo áratugi. Ísland er þar langneðst meðal Norðurlandanna, þrátt fyrir mikla sérþekkingu innanlands á þessum sviðum.
Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu um fjölda einkaleyfisumsókna íslenskra og norrænna fyrirtækja síðustu 20 ár.
Samkvæmt skýrslunni er Ísland neðst Norðurlanda þegar fjöldi einkaleyfisumsókna frá þarlendum aðilum er miðaður við mannfjölda og koma fáar íslenskar umsóknir fram á sviði endurnýjanlegrar orku.
„Þegar við skoðuðum þetta árið 2018 kom í ljós að hér voru 15 einkaleyfi í gildi á sviði jarðvarmatækni og hátt í 50 einkaleyfisumsóknir í eigu erlendra fyrirtækja til meðferðar, en engin frá íslenskum aðila,“ segir Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar, í samtali við mbl.is.
Hún bendir á að staðan hafi lítillega breyst frá þeim tíma. Meðal annars fyrirtæki eins og CarbFix og ÍSOR hafi sótt um einkaleyfi frá 2018. Fjöldinn sé þó enn mjög lítill í samanburði við önnur Norðurlönd.
„Við erum þarna langneðst á sviði jarðvarma og endurnýjanlegrar orku, sem kemur á óvart þar sem þekking og reynsla á því sviði eru óumdeilanlega til staðar hér á landi.“
Borghildur undirstrikar mikilvægi þess að fyrirtæki geri sér grein fyrir mikilvægi hugverkaréttar og verndun hugvits.
„Ef erlendir aðilar eiga einkaleyfi á tækni sem tengist jarðvarma hér á landi getur það haft áhrif á okkar nýtingu, þar sem þeir hafa þá einkarétt á viðkomandi tækni. Þetta er raunveruleg áhætta sem við þurfum að vera meðvituð um.“
Í skýrslunni kemur á hinn bóginn fram að Ísland eigi flestar einkaleyfisumsóknir af Norðurlöndunum miðað við höfðatölu á sviði heilbrigðistækni og segir Borghildur fyrirtækið Össur vera þar langumsvifamest.
Þegar litið er til heildarumsókna á öllum sviðum hefur Ísland alla jafna verið neðst meðal Norðurlanda síðustu 20 ár miðað við höfðatölu. Aðeins nýverið hefur Noregur verið neðar en Ísland.
„Þá má benda á tengsl þessarar niðurstöðu við alþjóðlega nýsköpunarvísitölu Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO), þar sem Ísland skipar 24. sæti af 140 ríkjum árið 2025. Við stöndum okkur illa í samanburði við hin Norðurlöndin. Norðmenn eru reyndar í 20. sæti og eru mjög ósáttir við það, en Svíar eru í öðru sæti, Finnar í því sjöunda og Danir í níunda. Það er því mikið svigrúm til úrbóta,“ segir Borghildur.
Hún segir mikla nýsköpun vera á Íslandi og telur jafnframt að hægt sé að gera betur til að nýta þau verðmæti sem verði til á grundvelli þekkingar hér á landi. Lykilatriði sé að íslensk fyrirtæki hugi að vernd hugverka sem hluta af verðmætasköpun og samkeppnisforskoti.
„Hugverkaréttindi eru óáþreifanlegar eignir og það skiptir máli að tryggja þessi verðmæti með réttri vernd, alveg eins og gert er með áþreifanlegar eignir eins og fasteignir og bíla, ekki síst þegar kemur að fjármögnun. Fyrsta spurning fjárfesta er yfirleitt: Hvernig verndar þú hugverkin þín?“ segir hún og bætir við:
„Hugverk eru oft verðmætustu eignir fyrirtækja. Þegar fjárfest er í fyrirtækjum sem byggja á hugviti þarf fjárfestir að hafa vissu fyrir því að fyrirtækin tryggi vernd hugverka sinna, þannig að aðrir aðilar geti ekki hagnýtt sér þekkingu fyrirtækjanna og hugvit án samþykkis þeirra. Það er lykilpunkturinn í þessu öllu saman. Þetta geta verið verðmætustu eignir fyrirtækja.“