Lögreglan innsiglaði hótel í miðbænum

Ekki kemur fram hvaða hótel var innsiglað.
Ekki kemur fram hvaða hótel var innsiglað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hótel í miðbænum var innsiglað í dag af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Ekki er tekið fram um hvaða hótel sé að ræða en fram kemur að ekki hafi verið til staðar rekstrarleyfi.

Í dagbók lögreglu kennir ýmissa grasa og hafði lögreglan mörg verkefni á sinni könnu. Þar á meðal þurfti lögreglan að vekja mann sem hafði sofnað í anddyri blokkar í Laugardalnum og reka hann úr blokkinni.

Ók á kyrrstæða bifreið

Þá voru ökumenn á höfuðborgarsvæðinu stöðvaðir án réttinda, undir áhrifum áfengis og fyrir að valda umferðarslysi.

Í Garðabænum var til dæmis ekið á kyrrstæða bifreið og var ökumaðurinn fluttur á bráðamóttöku til frekari skoðunar.

Tilkynnt var um líkamsárás í Kópavoginum en meint fórnarlamb var farið af vettvangi er lögreglu bar að garði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert