Magnús Rannver Rafnsson, byggingarfulltrúi á Höfn í Hornafirði og varaformaður Félags byggingarfulltrúa, varar eindregið við þeim hugmyndum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) að færa byggingareftirlit til skoðunarstofa og að embætti byggingarfulltrúa verði lögð niður eða gerð óvirk.
„Hugmyndin að skilja ekki á milli hönnunar og eftirlits er alvarlegur galli á þessum tillögum, enda þekkist slíkur aðskilnaður annars staðar þar sem slík skoðunarstörf eru viðhöfð. Það þarf að skilja þar á milli og það eru litlar líkur á því að slíkt geti þrifist innan sama fyrirtækis. Þessar tillögur virðast vera ný leið fyrir stærstu tjónvalda landsins til þess að maka krókinn á kostnað almennings,“ segir Magnús og vísar til þess að 70% byggingargalla eru rakin til hönnunar og ráðgjafar. Umræðan snúist hins vegar um að eftirlit skorti og lausnin sé að leggja niður embætti byggingarfulltrúa og færa eftirlit til þeirra sem hönnuðu mannvirkin.
Hann segir að á þessum tímapunkti sé mikilvægt að rifja upp að regluverkið sem nú er í gildi takmarki verulega eftirlitsskyldu byggingarfulltrúa frá því sem áður var.
„Við síðustu breytingar var hluti af eftirlitsskyldu færður frá byggingarfulltrúa til byggingarstjóra, sem á nú að leggja niður, af því að það fyrirkomulag gekk alls ekki upp. Ef þessar tillögur verða að veruleika þá munu sveitarfélög standa ráðalaus gagnvart ofríki stórfyrirtækja í Reykjavík. Eftirlit frá skoðunarstofum mun hlaða hratt utan á sig auknum kostnaði, í boði íslenskra skattgreiðenda, og ólíklegt að þetta gangi upp fyrir íslenska mannvirkjagerð.“
Hann gagnrýnir líka hvernig staðið hefur verið að undirbúningi tillagna HMS þar sem þátttaka byggingarfulltrúa í svokölluðum vinnustofum hafi verið takmörkuð, að tillögur hafi verið lagðar fram svo gott sem tilbúnar og spyr hvers vegna háskólarnir voru ekki kallaðir til þessarar vinnu.
„Háskólar eiga að vera vagga faglegra vinnubragða, en fjarvera háskólanna virðist vera angi af þessum sama meiði og hindrun á þátttöku sveitarfélaga. Því miður virðast þeir sem mesta ábyrgðina bera á ástandinu eins og það er enn þá ráða ferðinni.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.