Ráðgátan leiddi til frekari leitar

Hvalaskoðunarbáturinn Máni kom að hnúfubaknum í öngum sínum laust fyrir …
Hvalaskoðunarbáturinn Máni kom að hnúfubaknum í öngum sínum laust fyrir klukkan 10 á föstudag. Ljósmynd/Aðsend/Freyr Antonsson

Hnúfubakurinn sem fannst fastur á föstudaginn rétt austan við Hrísey hefur ekki fundist. Síðast sást til hans á föstudagskvöldið.

Greint hefur verið frá því að dýptarmælingar bendi til þess að hann hvíli nú í votri gröf en starfsmenn Arctic Sea Tours á Dalvík vildu staðfesta það og héldu út að leita að honum í dag.

„Við vorum að reyna að skanna og sjá hvort við sæjum eitthvað sem benti til þess að hann væri þarna en það tókst ekki,“ segir Freyr Antonsson, eigandi Arctic Sea Tours, í samtali við mbl.is.

Myndi halda að það væru sjáanleg merki á sporðinum

Fjórir hnúfubakar sáust á svæðinu á laugardaginn. Spurður hvort hann gæti verið einn af þeim svarar Freyr að það sé ólíklegt þótt það sé alltaf möguleiki.

„Mér finnst það mjög ólíklegt. Þeir hafa verið hátt í 20 á þessu svæði. En það er aðallega hvernig þeir voru að haga sér, ég myndi halda að ef hann væri búinn að vera fastur í smá stund að þá væru sjáanleg merki á sporðinum. Þeir voru allir með flottan sporð og engin ör,“ segir hann enn fremur.

„En auðvitað getur allt í einu komið upp að við sjáum hval sem er með einhver svona merki.“

„Það er pínu ráðgáta af hverju hann festist“

Spurður hvort venjan sé að leggja vinnu í að leita að hval sem talinn er af svarar Freyr:

„Það er náttúrulega bara af því að við erum í þessum bransa. Við höfum tæki og tól til þess og við vorum forvitnir að vita afdrifin, af hverju hann festist.“

Leitin hafi verið framkvæmd á kostnað fyrirtækisins.

„Það er pínu ráðgáta af hverju hann festist, af hverju hann var þarna á þessu dýpi. Það var ekkert sjáanlegt í kring sem benti til neins, þess vegna vorum við til í þetta.“

„Hefði viljað staðfesta það“

Máni, hvalaskoðunarbátur fyrirtækisins, sigldi yfir svæðið á laugardagsmorgun og á dýptarmæli mældist eitthvað á 6-7 metra dýpi, sem kann að hafa verið hvalurinn. Spurður hvort það sé enn þá kenningin svarar Freyr:

„Það er verst að geta ekki staðfest það. Líka bara ef hann hefur sokkið þá hefðum við átt að nema það.

Það er eiginlega vonlaust að segja það. Ef við hefðum mælt þetta aftur á sama stað væri mjög líklegt að þetta væri hann, en ég hefði viljað staðfesta það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert