Harpa Elín Haraldsdóttir, forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal, er látin, 45 ára að aldri. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi sl. laugardag, 1. nóvember.
Harpa fæddist 28. janúar 1980, dóttir Helgu Þorbergsdóttur hjúkrunarfræðings og Haralds Inga Haraldssonar myndlistarmanns. Fósturfaðir Hörpu er Sigurgeir Már Jensson, heilsugæslulæknir í Vík í Mýrdal. Harpa ólst upp í Mýrdalnum en fór svo til náms. Hún nam mannfræði til BA-gráðu við Háskóla Íslands. Tók mastersgráðu í alþjóðatengslum frá Institut Barcelona Estudis Internacionals, diplómapróf í verkefnastjórn og fyrirtækjarekstri og leiðsögumannspróf frá Leiðsöguskóla Íslands.
Á erlendum vettvangi var Harpa meðal annars verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragva og framkvæmdastjóri GeoThermHydro í Síle. Frá í ágúst 2021 veitti hún forstöðu Kötlusetrinu í Vík, samfélagsstofnun þar sem listir, menning, náttúra og saga í Mýrdal eru umfjöllunarefni.
Á aðalfundi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga nýlega voru Hörpu veitt menningarverðlaun samtakanna „fyrir ómetanlegt og óeigingjarnt framlag sitt til menningar og samfélags í Mýrdalshreppi“, eins og komist var að orði. Í rökstuðningi dómnefndar, sem vitnað var til við afhendinguna, er Hörpu lýst sem „ótrúlegum drifkrafti“ í samfélaginu. „Með sinni einstöku orku, jákvæðni og góðvild hefur hún haldið uppi menningarstarfi og samfélagslegri virkni af ótrúlegum krafti,“ sagði í umsögn. Þar var jafnframt tiltekið að framlag hennar hefði náð langt út fyrir hefðbundin starfsmörk. Hún hefði staðið að skipulagningu og framkvæmd bæjarhátíða á borð við Regnbogann og Vor í Vík, oft ein eða með takmarkaðri aðstoð, auk þess að standa fyrir tónleikum og sýningum.
Eftirlifandi eiginmaður Hörpu er Pablo Javier Cárcamo Maldanado frá Síle. Sonur þeirra er León Ingi, f. 2015.