Það sem virtist vera saklaus og eðlilegur tölvupóstur frá bókara reyndist vera einhvers konar netárás eða tilraun til svika.
Anton Björn Markússon lögmaður varð fyrir því óláni að opna skrá sem barst frá bókara hans og leit út fyrir að eiga að innihalda fjárhagsupplýsingar sem Anton átti von á.
Varð það til þess að tölvuþrjótar náðu stjórn á pósthólfi hans og sendu m.a. torkennilega pósta á fjölda lögmanna.
„Ég fékk tölvupóst í morgun frá bókaranum mínum með viðhengi með heitinu fjárhagslegar upplýsingar fyrir október,“ segir Anton.
Þótti honum pósturinn eðlilegur þar sem hann hafði verið að bíða eftir slíkum upplýsingum úr þessari átt.
„Ég þakkaði honum meira að segja fyrir og hugsaði hvað þetta væri öruggt, því ég þurfti að auðkenna mig og setja inn kóða.“
Segir Anton þó í samtali við mbl.is að fljótlega hafi komið í ljós að eitthvað var ekki eins og það átti að vera.
„Þegar ég náði ekki að opna viðhengið og ekkert gerðist fóru að renna á mig tvær grímur,“ segir hann.
Hafði Anton samband við bókarann sem reyndist hafa orðið fyrir sams konar árás.
„Hann var sýktur líka og skömmu síðar fóru símtöl að berast frá öðrum lögmönnum sem sögðust hafa fengið óvenjulega tölvupósta frá mér.
„Þeir spurðu hvort ég væri að senda þeim einhverjar fjárhagsupplýsingar. Þá áttaði ég mig á því hvað hefði gerst,“ segir hann.
Anton hafði þegar samband við Lögmannafélag Íslands og bað um að félagið sendi viðvörun til félagsmanna.
„Mér fannst það ábyrgðarhluti að láta vita strax svo aðrir lentu ekki í sömu vandræðum.“
Tölvumaður sem aðstoðaði Anton fann ummerki um tengingar frá mismunandi stöðum í Bandaríkjunum, eins og til dæmis Norður-Karólínu, Flórída og fleiri stöðum. Anton segir að árásin hafi að mestu verið stöðvuð. Nú fái hann póst inn en geti reyndar ekki enn sent út.
„Ég held að Microsoft hafi lokað á mig,“ segir hann.
Anton segist ekki hafa áhyggjur af því að trúnaðargögn hafi komist í rangar hendur. „Það er ekkert í mínum skjölum sem ég hef sérstakar áhyggjur af,“ segir Anton sem viðurkennir að reynslan hafi verið óþægileg og málið allt ferlega leiðinlegt.