Biður stjórnvöld um meiri stuðning

Filippo Grandi, aðalframkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR), er staddur hér …
Filippo Grandi, aðalframkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu Þjóðanna (UNHCR), er staddur hér á landi. mbl.is/Eyþór

Filippo Grandi, aðalframkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), er staddur hér á landi til þess að funda með íslenskum stjórnvöldum um stöðu málaflokksins, skautun í pólitískri umræðu um útlendingamál og það hvaða aðgerðir stjórnvöld geti gripið til þess að ná fram árangri í aðlögun flóttafólks.

Hann ræddi við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra í gær og átti fund með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra í dag. 

Segir Grandi í samtali við mbl.is að hann hafi lagt áherslu á það í samtölum sínum við stjórnvöld að þau fjárfesti í aðlögun þeirra flóttamanna sem landið taki á móti og fjárfesti jafnframt í góðu kerfi til þess að greina hvort að þeir sem hingað leiti séu flóttamenn í raun.

Þá sagði Grandi að hann hefði beðið íslensk stjórnvöld um að taka aftur á móti svonefndum „kvótaflóttamönnum,“ og segir að það kerfi sem hér var komið á fót hafa gefið góða raun.

Skiptir öllu máli fyrir þá sem fá vernd

Hann segist skilja að framlög Íslands séu mikil fyrir lítið ríki, en að hann sé mjög þakklátur okkur og voni að þau geti haldið áfram. Segir Grandi að hann hafi beðið ríkisstjórnina um að aðstoða UNHCR frekar á þessum tímamótum. „Ég kom hingað sérstaklega til þess að koma eftirfarandi til skila: lítið ríki getur vissulega látið til sín taka og er að gera gæfumuninn í lífi margra,“ segir Grandi.

Hann bætir við að hér hafi verið tekið upp kerfi um að taka á móti flóttamönnum, þar sem um 100 manns á ári fengu að koma hingað. „Í fyrsta lagi var þetta mjög gott verkefni. Það má spyrja, það eru 120 milljónir á flótta, hvaða máli skipta 100 manns í því samhengi? Það skiptir öllu máli fyrir þessa hundrað,“ segir Grandi. „Í öðru lagi hafði Ísland mjög góða stefnu þegar flóttafólkið var valið, konur, fórnarlömb ofbeldis og fólk í erfiðum aðstæðum í takt við ykkar sterku jafnréttisstefnu.“

„Þessar konur voru kannski þegar flóttamenn í öðrum ríkjum þar sem þær fengu ekki næga aðstoð, sálfræðilega, læknisfræðilega eða félagslega aðstoð. Eða kannski voru þetta meðlimir hinsegin-samfélagsins, við segjum við stjórnvöld ríkja sem taka á móti flóttamönnum að ef einhver flýr vegna þess að hann er ofsóttur eða mismunað á grundvelli kynvitundar eða kynhneigðar ætti að skoða hvort að viðkomandi geti talist sem flóttamaður.“

„Vandinn er að það gerist í mörgum heimshlutum að þetta fólk flýr land sitt og fer til annars lands þar sem því er áfram mismunað. Þannig að það fær kannski stöðu flóttafólks en lifir áfram erfiðu lífi,“ segir Grandi. Það sé því mjög gott ef slíkt fólk getur komist til ríkja á borð við Ísland, Kanada eða Hollands.

Vill að stjórnvöld taki aftur á móti kvótaflóttamönnum

Grandi segir að þetta kvótakerfi flóttamanna hafi hins vegar verið stöðvað, þar sem of mikið af öðru fólki kom hingað, þar á meðal fólk frá Úkraínu og frá Venesúela.

„Nú þegar búið er að ná betri tökum á því ástandi hef ég beðið ríkisstjórnina um að hefja aftur kvótakerfið, því að þetta er önnur stór leið fyrir Ísland til þess að hjálpa þessum samfélögum og þessum flóttamönnum,“ segir Grandi, en þetta var á meðal þess sem hann ræddi við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra í gær. „Og ég vona að ríkisstjórnin muni hugleiða þetta.“

Nánara viðtal við Grandi verður í Morgunblaðinu á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert