Icelandair hefur boðað til starfsmannafunda á föstudag þar sem leitast verður við að svara þeim spurningum sem brenna á starfsfólki, en 38 var sagt upp hjá félaginu í dag.
Uppsagnirnar náðu til ýmissa deilda, en aðallega til skrifstofunnar í Hafnarfirði.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, boðar til fundanna í tölvupósti, sem mbl.is hefur undir höndum og var sendur út í morgun.
Í póstinum tilkynnir hann jafnframt um uppsagnirnar og útskýrir að þær séu liður í þeirri vegferð að einfalda skipulag og fækka verkefnum.
Í tilkynningu frá Icelandair í morgun sagði að breytingarnar væru hluti af hagræðingaraðgerðum, en um þessar mundir væri höfuðáhersla lögð á að bæta afkomu félagsins.
„Undanfarin misseri hefur félagið gripið til fjölmargra aðgerða og má þar nefna aðlögun leiðakerfisins að markaðsaðstæðum, fækkun flugvéla í rekstri um tvær og að hætta rekstri breiðþotna á næsta ári, auk ýmissa umbótaverkefna þvert á fyrirtækið sem hafa skilað sér í aukinni skilvirkni og sjálfvirknivæðingu,“ sagði þar jafnframt.
Icelandair Group birti afkomuviðvörun um miðjan október þar sem kom fram að EBIT-hagnaður þriðja ársfjórðungs yrði um 74 milljónir bandaríkjadala en hafði verið 83,5 milljónir á sama tíma í fyrra.
Var það töluvert undir væntingum stjórnenda, sem í uppgjöri annars ársfjórðungs höfðu gert ráð fyrir betri afkomu en árið áður.
Fram að starfsmannafundunum á föstudag munu Bogi og aðrir stjórnendur, sem og starfsfólk mannauðssviðs, vera „til staðar fyrir samtöl og stuðning“, að því er segir í póstinum.