Isavia ANS, sem annast flugleiðsögu á Íslandi, og Isavia Innanlandsflugvellir, sem rekur Reykjavíkurflugvöll á grundvelli þjónustusamnings við ríkið, hafa farið ítarlega yfir skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um atvik sem átti sér stað yfir Kársnesi í október í fyrra.
Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Atvikið varð 6. október þegar tvær kennsluflugvélar, TF-TWO og TF-FGC, komu hættulega nálægt hvor annarri í aðflugi að flugbraut í um 400 feta hæð yfir Kópavogi, sunnan við Kársnes.
Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir í skriflegu svari við fyrirspurn að málið hafi verið tekið fyrir í síþjálfun flugumferðarstjóra.
„Þar hefur verið lögð áhersla á þau úrræði sem flugumferðarstjórar hafa til að halda álagi innan eðlilegra marka eins og var í þessum tilteknu aðstæðum, þar sem bæði þyrlu- og drónaflug var við völlinn,“ segir í svarinu.
Þá segir hann Samgöngustofu vera að endurskoða loftrýmið við Reykjavíkurflugvöll. Þeirri vinnu sé ekki lokið.
„Óháð þessu atviki þá er unnið að fleiri umbótum fyrir Reykjavíkurflugvöll. Má þar nefna t.d. birtingu nýrra flugferla fyrir loftför í sjónaðflugi og öflun betri kögunargagna fyrir flugumferðarstjóra til að bæta yfirsýn,“ segir hann.
Áhersla sé lögð á endurbætur og skjót viðbrögð við atvikum sem verða eins og hjá flugvallar- og flugleiðsögufyrirtækjum um allan heim.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
