Einfalda skipulag og fækka verkefnum: 38 sagt upp

Bogi segir aðgerðir sem þessar alltaf erfiðar.
Bogi segir aðgerðir sem þessar alltaf erfiðar. mbl.is/Eyþór

Icelandair sagði í morgun upp 38 starfsmönnum í ýmsum deildum, en aðallega á skrifstofu félagsins í Hafnarfirði.

Eru uppsagnirnar liður í þeirri vegferð að einfalda skipulag og fækka verkefnum, að því er segir í tilkynningu frá Icelandair.

„Þessar breytingar eru liður í hagræðingaraðgerðum, en um þessar mundir er höfuðáhersla lögð á að bæta afkomu félagsins,“ segir í tilkynningunni.

„Undanfarin misseri hefur félagið gripið til fjölmargra aðgerða og má þar nefna aðlögun leiðakerfisins að markaðsaðstæðum, fækkun flugvéla í rekstri um tvær og að hætta rekstri breiðþotna á næsta ári, auk ýmissa umbótaverkefna þvert á fyrirtækið sem hafa skilað sér í aukinni skilvirkni og sjálfvirknivæðingu.“

Greint var frá uppsögnunum á mbl.is í morgun.

Öllum steinum velt við

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að ákvarðanir sem þessar séu alltaf erfiðar og að erfitt sé að sjá á eftir góðum vinnufélögum.

„Undanfarin misseri höfum við verið að velta við öllum steinum til þess að snúa rekstri félagsins við. Það er nauðsynlegt til þess að Icelandair geti tekist á við sveiflur í síbreytilegu umhverfi flugrekstrar, til að tryggja samkeppnishæfni og bæta afkomu félagsins til framtíðar,“ er haft eftir Boga.

„Einn liður í þessari vegferð er einföldun skipulags og fækkun verkefna sem leiðir því miður til breytinga í starfsmannahópnum sem við tilkynntum starfsfólki okkar í dag.“

Að lokum þakkar Bogi því fólki sem lætur af störfum fyrir þeirra framlag til Icelandair.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert