Vantraust almennings til íslenskra ráðherra hefur aukist talsvert á milli tveggja kannana Maskínu. Samkvæmt niðurstöðunum bera flestir lítið traust til Guðmundar Inga Kristinssonar, mennta- og barnamálaráðherra, en 55 prósent svarenda segjast bera lítið traust til hans.
Vísir greindi fyrst frá.
Vantraust til mennta- og barnamálaráðherra hefur aukist um 23 prósentustig frá síðustu könnun en þá gegndi Ásthildur Lóa Þórsdóttir embættinu.
Í öðru sæti yfir ráðherra sem flestir bera lítið traust til er Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, en um helmingur svarenda segist bera lítið traust til hennar. Það hlutfall hefur lítið breyst milli kannana.
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra kemur þar á eftir en um 40 prósent bera til hans lítið traust. Um 35 prósent segjast bera lítið traust til þeirra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra, Loga Einarssonar, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra og Jóhanns Páls Jóhannssonar umhverfisráðherra.
Tæplega 30 prósent bera lítið traust til Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra, Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra og Daða Más Kristóferssonar fjármálaráðherra.
Fæstir bera lítið traust til Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og Ölmu Möller heilbrigðisráðherra eða um 25 prósent svarenda.
Eins og við mátti búast er röðin nær öfug þegar litið er á hversu mikið traust fólk ber til ráðherranna.
Kristrún Frostadóttir og Alma Möller njóta mest trausts og ráðherrar Viðreisnar fylgja þeim á eftir. Traust til Daða Más Kristóferssonar hefur aukist mest milli kannana eða um 21 prósentustig.
Ráðherrar Flokks fólksins skipa aftur á móti neðstu sætin þegar traust er metið.
Könnun Maskínu fór fram dagana 8.-15. október og voru svarendur 1.232 talsins.