Framleiðslustöðvun Norðuráls gæti haft áhrif á grunnþjónustu borgarinnar, segir Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en 4,8 milljarða jákvæð niðurstaða fjárhagsáætlunar sem kynnt var í dag er háð 6 milljarða arðgreiðslu Orkuveitunnar.
„Staðan á Grundartanga er auðvitað verulegt áfall fyrir marga. Skert framleiðsla hjá Norðuráli getur ljóslega haft bein áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar en um langa hríð hefur rekstrinum verið þannig fyrir komið að hér er ekki hægt að veita grunnþjónustu öðruvísi en að krefjast ríflegra arðgreiðslna frá Orkuveitunni. Ef skert framleiðslugeta leiðir til uppnáms í orkusamningum milli Norðuráls og Orkuveitunnar getur það haft verulega neikvæð áhrif á tekjur samstæðunnar og þar með arðgreiðslugetu,“ segir Hildur.
Hún segir Orkuveitusamstæðuna hafa sett sér skýra arðgreiðslustefnu og lækkun á tekjum félagsins geta leitt til þess að arðgreiðsluskilyrði reynist óuppfyllt.
Í dag birtist fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026. Gerir áætlunin ráð fyrir að afgangur af rekstri borgarsjóðs verði tæplega 4,8 milljarðar á næsta ári.
„Þessi niðurstaða hangir á væntingum um rúmlega sex milljarða arðgreiðslur frá Orkuveitunni, sem nú ríkir ákveðin óvissa um. Hún hangir raunar líka á væntingum um 4 milljarða sölu byggingarréttar á næsta ári, sem skýtur verulega skökku við enda samþykkti meirihlutinn í liðinni viku að nýtt hverfi í Úlfarsárdal færi inn í sérstakt innviðafélag og tekjur af sölu byggingarréttar myndu því ekki renna í borgarsjóð. Hér fer illa saman hljóð og mynd, en það er svo sem ekkert nýtt,“ segir Hildur.
Hún segir Reykjavíkurborg miða við það í sinni framtíðarsýn í fjármálum að ná sjálfbærni í rekstrinum.
„Það er því miður langt í land enda hefur reksturinn um langa hríð hangið á bæði arðgreiðslum og eignasölu. Reglulegar tekjur af rekstri borgarinnar duga ekki nándar nærri fyrir útgjöldum. Nú er málum þannig fyrir komið að skert framleiðslugeta álvers á Grundartanga getur sett rekstur grunnþjónustu Reykjavíkurborgar í uppnám. Það er auðvitað fráleit staða sem skrifast á þau sem stýrt hafa borginni um árabil,“ segir Hildur.
„Það er ljóst að eitthvað verulegt þarf að breytast í rekstrinum ef við ætlum að ná sjálfbærni. Við þurfum að ráðast í hagræðingar, minnka yfirbygginguna og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Samhliða þarf að útvista fleiri verkefnum, ráðast í skynsamlega eignasölu og láta af samkeppnisrekstri. Einungis þannig hreyfum við nálina,“ segir hún að lokum.