Grunaðir fjársvikarar fá að ganga lausir

Tímabundinn veikleiki í kerfum Reiknistofu bankanna gerði óprúttnum aðilum kleift …
Tímabundinn veikleiki í kerfum Reiknistofu bankanna gerði óprúttnum aðilum kleift að misnota kerfið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsréttur hafnaði beiðni lögreglunnar um gæsluvarðhald yfir mönnum sem grunaðir eru um að millifæra hundruð milljóna af eigin reikningum án þess að inneign væri til staðar. 

Þetta staðfestir Agnes Ósk Marzellíusardóttir, lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Landsréttur staðfestir þar með úrskurð héraðsdóms sem hafði áður hafnað gæsluvarðhaldsbeiðninni.

Tímabundinn veikleiki í kerfum Reiknistofu bankanna gerði óprúttnum aðilum kleift að misnota kerfið.

Agnes Ósk sagði við Ríkisútvarpið fyrr í dag að lögregla óttaðist að sakborningarnir gætu nýtt sér frelsið til að koma fé undan. 

Millifærðu 400 milljónir af reikningum Landsbankans

Alls náðu sakborningarnir að millifæra tæplega 400 milljónir króna af eigin reikningum hjá Landsbankanum án þess að inneign væri til staðar, að því er fram kemur í skriflegu svari Rúnars Pálmasonar upplýsingafulltrúa bankans.

Þegar svikin uppgötvuðust náði bankinn að frysta rúmlega 140 milljónir sem enn voru á bankareikningum í Landsbankanum. Þá voru fjármunir frystir á reikningum hjá öðrum fjármálafyrirtækjum og krafa gerð um kyrrsetningu eigna.

Telur bankinn að með aðgerðunum verði hægt að takmarka tjón bankans við um 200 milljónir króna. Gæti sú fjárhæð jafnvel lækkað.

Eitt tilvik hjá Arion banka

Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, segir að aðeins hafi verið um að ræða eina millifærslu í bankanum og hljóðaði sú upp á rúmar tíu milljónir. Of snemmt er að segja til um hvað fæst endurheimt.

Bjarney Anna Bjarnadóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka, segir engin tilvik hafa komið upp þar sem þessi veikleiki var nýttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert