Guðni Ágústsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, skrifar í Morgunblaðið í dag að ögurstund sé runnin upp hvað íslenska tungumálið varðar. Ef við rísum ekki upp og berjumst fyrir tungumálinu munum við deyja drottni okkar og vakna upp við vondan draum innan fárra ára.
Tilefni greinarinnar er pistill tónlistarmannsins Bubba Morthens, sem birtist í Morgunblaðinu fyrir fáeinum vikum.
Guðni segir skrif Bubba vera stórmerki þar sem söngvarinn varar við því að „tungumálið okkar sé fast í kviksyndi aðgerðaleysis“.
Guðni tekur undir áhyggjur Bubba og bendir á að íslenskan sé orðin „hornkerling í eigin landi“.
Segir hann að stjórnvöld hafi opnað landið svo skarpt að íslenskan víki fyrir erlendum áhrifum.
„Það er atvinnulífið sem fremst gengur í að slátra tungumálinu, það skírir fyrirtækin upp á
ensku og svo rammt kveður að þessari spillingu að í Reykjavík, höfuðborginni sjálfri, fær maður á tilfinninguna að maður sé staddur í erlendri borg. Enn fremur eru hótel og ferðamannastaðir nefnd upp á ensku á landsbyggðinni,“ skrifar Guðni og bætir við að varla heyrist íslenska töluð á ferðamannastöðum.
Þess má geta að Morgunblaðið fjallaði ítarlega um breytingar í miðborg Reykjavíkur á síðasta ári.
Hann vitnar til skáldsins Snorra Hjartarsonar og segir þjóðina standa frammi fyrir „örlagastund grimmri og kaldri“ gagnvart tungunni.
Guðni spyr hvort komið sé að því að setja þurfi í lög að öll fyrirtæki á Íslandi beri íslenskt heiti sem aðalnafn.
„Ferðamenn eru engir asnar, þeir kunna að meta hin rismiklu nöfn íslenskunnar eins og frægt varð með Eyjafjallajökul. Enn fá nöfnin Skálholt, Þingvellir og Haukadalur að standa.“
Grein Guðna í heild sinni: