Carlo Stradiotti, starfandi framkvæmdastjóri ítalska flugfélagsins Neos, hefur verið kallaður fyrir Héraðsdóm Reykjaness þann 3. desember. Þar skal hann vera viðstaddur þingfestingu skaðabótamáls sem íslenskir viðskiptavinir flugfélagsins hafa höfðað gegn félaginu.
Í málsgögnum sem voru birt í Lögbirtingablaðinu segir að „ef ekki verður mætt af hálfu stefnda við þingfestingu málsins má hann búast við því að útivistardómur gangi í málinu“.
Lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson rekur málið fyrir hönd stefnenda, sem eru 11 talsins. Þann 21. október 2023 áttu þeir bókað flugfar með Neos frá Tenerife til Keflavíkur. Aftur á móti urðu tafir á brottför og fór vélin ekki í loftið fyrr en 15 klukkustundum eftir áætlaða brottför.
Flugfélaginu voru send 12 kröfubréf á vikutímabili, frá 23.10.2023 til 30.10.2023, þar sem stefnendur kröfðust að félagið greiddi sér 400 evrur í skaðabætur vegna tafa á fluginu, eða um 59 þúsund krónur, með vísan til 7. gr. EB-reglugerðar nr. 261/2004.
Félaginu var gefinn 15 daga frestur til þess að greiða skaðabæturnar eða sæta því ella að honum yrði stefnt án frekari viðvörunar.
Engin svör bárust frá félaginu.
Örn Gunnlaugsson:
Kröfur á rangan aðila ?
