Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, segir að tími blóðmerahalds sé liðinn. „Við eigum að ganga fram með góðu fordæmi og leggja bann við þessari starfsemi með skýrum hætti í lögum.“
Þetta sagði Kolbrún undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Hún benti á að Flokkur fólksins hefði lengi barist fyrir banni við blóðmerahaldi. Það væri óásættanlegt að blóði sé tappað af fylfullum hryssum í hagnaðarskyni og það væri ekkert annað en kerfisbundið dýraníð.
„Sársaukafull hagnýting dýranna ræður för en umhyggja fyrir þeim situr á hakanum,“ sagði þingmaðurinn.
Fram kom í hennar máli að blóðtaka úr fylfullum hryssum til framleiðslu á hormóninu PMSG hefði verið felld undir reglugerð um vernd dýra sem notuð væri í vísindaskyni haustið 2023 eftir að íslensk stjórnvöld höfðu fengið formlegt áminningarbréf frá ESA, Eftirlitsstofnun EFTA.
„Þar kom fram að framkvæmd þessarar blóðtöku á Íslandi bryti í bága við tilskipun Evrópusambandsins um vernd tilraunadýra. Starfsemin hefði verið ranglega flokkuð sem hefðbundinn landbúnaður í stað tilraunastarfsemi. Þetta þýðir að blóðmerahald hefur árum saman farið fram án lagalegrar verndar dýranna,“ sagði Kolbrún.
Hún bætti við að árið 2020 hefði Matvælastofnun ákveðið að hlífa fyrirtækinu Ísteka við þeim kröfum sem reglur um tilraunadýr gerðu með því að flokka starfsemina sem landbúnað. Þannig væru hryssurnar sviptar þeirri vernd sem þær bæru samkvæmt lögum.
„Nú hefur þessi flokkun verið leiðrétt og starfsemin fellur því undir reglugerð um vernd dýra sem eru notuð í vísindaskyni. Forsvarsmenn Ísteka hafa mótmælt aukinni vernd dýranna og vísað málinu til dómstóla. Það er til marks um hversu röng þessi starfsemi er að vernd dýra skuli af sumum talin ógn við atvinnugrein,“ sagði þingmaðurinn.
Kolbrún sagði enn fremur að á undanförnum árum hefðu fjölmargir bent á að blóðtaka úr fylfullum hryssum valdi verulegri þjáningu. Dýrunum væri haldið við erfiðar aðstæður, þau misstu mikið blóð og stressuðust við aðfarirnar.
„Þetta eru ekki einungis einangruð tilvik heldur iðnaður með þúsundir dýra, iðnaður sem þjónar fyrst og fremst erlendum lyfjafyrirtækjum sem nýta PMSG-hormón til framleiðslu frjósemislyfja fyrir fjöldaframleiðslu svína í öðrum löndum.
Virðulegi forseti. Tími blóðmerahalds er liðinn. Við eigum að ganga fram með góðu fordæmi og leggja bann við þessari starfsemi með skýrum hætti í lögum,“ sagði Kolbrún að lokum.