Koma mætti upp stuðningskerfi fyrir læknanema erlendis

Um helmingur þeirra Íslendinga sem ljúka námi í læknisfræði gera það frá erlendum háskólum. Ólíkt t.d. Norðmönnum styður íslenska ríkið ekki við þessa nemendur sem bera mikinn kostnað af náminu persónulega.

Þetta bendir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala Háskólasjúkrahúss á í viðtali í Spursmálum.

Hvernig má laða fólkið heim?

Þar ræðir hann meðal annars þær leiðir sem íslenskt samfélag hefur til þess að laða íslenskt heilbrigðisstarfsfólk heim sem annað hvort hefur lokið grunn- eða framhaldsnámi erlendis.

Þar segir hann skipta máli sú aðstaða sem fólki er boðið upp á og að nýtt sjúkrahús við Hringbraut muni þar skipta sköpum.

Hann segist einnig telja að launakjör hafi batnað mjög og séu sambærileg eða jafnvel betri en í sumum þeirra landa sem við erum í samkeppni við um starfsfólk.

Þá segir hann skipta miklu máli hvernig talað sé um kerfið hér heima og aðstæður almennt. Oft séu dregnar upp of neikvæðar myndir af stöðunni, ekki síst eftir tilkomu samfélagsmiðla. Því sé nauðsynlegt að eiga samtöl beint við það fólk sem vilji er til að fá til starfa.

Fjölga innteknum læknanemum

Nýlega var tekin ákvörðun um að fjölga nemendum í læknisfræði við Háskóla Íslands úr 60 í 75 en Runólfur segir að kerfið hér heima sé takmarkað að því leyti að ekki sé hægt að taka endalaust á móti fleiri nýnemum. Því verði einnig að stóla á skóla erlendis sem bjóði upp á nám í læknisfræði.

Orðaskiptin um þetta má sjá í spilaranum hér að ofan.

Viðtalið við Runólf má nálgast í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert