Alls komu 188 skemmtiferðaskip til Ísafjarðarbæjar á þessu ári og er það tveimur skipum fleira en í fyrra. Áætlaðar tekjur af hafnargjöldum eru tæpar 854 milljónir samanborið við 756,5 milljónir á síðasta ári.
Frá þessu greinir í tilkynningu á vef Ísafjarðarbæjar, en þar kemur einnig fram að áætlað sé að skipakomum fækki lítils háttar á næsta ári, en þá hefur 181 skemmtiferðaskip bókað komu sína til bæjarins. Þó er þess getið að það kunni að breytast þegar nær dregur.
Samkvæmt samantekt frá Cruise Iceland er gert ráð fyrir verulegri fækkun í skipakomum árið 2027, en þá er reiknað með að 136 skemmtiferðaskip taki land í bænum, en ástæða þess er rakin til innviðagjalda og afnáms tollfrelsis skemmtiferðaskipa sem sigla með ströndum fram og koma til hafnar á fáfarnari stöðum. Hefur því verið líkt við hrun.
Fram kemur m.a. að 247.160 farþegar hafi komið með skipunum á þessu ári, en verulegar tekjur renna til samfélagsins þegar farþegar og áhafnir skipanna greiða fyrir vörur, þjónustu og afþreyingu.
Í rannsóknum sem gerðar hafa verið á kauphegðun farþega og áhafna skemmtiferðaskipa kemur fram að meðaleyðsla hvers farþega sé um 23.000 krónur og meðaleyðsla áhafnar sem fer í land sé um 11.000 krónur á mann.
Ekki kemur fram í tilkynningu hve margir áhafnarmeðlimir skipanna hafi komið í land, en hvað farþegana varðar er áætlað að þeir hafi eytt tæpum 5,7 milljörðum fyrir vörur, afþreyingu og þjónustu í bænum, að því gefnu að þeir hafi allir drepið niður fæti þar. Er þá eyðsla áhafnar ótalin.
Tekjurnar sem renna í hafnarsjóð eru tilkomnar vegna gjalda sem skipafélögin greiða fyrir afnot af höfninni og þá þjónustu sem þar er í boði. Þannig voru t.d. seldir 9.579 rúmmetrar af vatni til skipanna.
Bæjarstjórn hefur samþykkt stefnu og aðgerðaáætlun um móttöku skemmtiferðaskipa í höfnum Ísafjarðarbæjar fyrir árin 2024-2027, en með henni er ætlunin að bæta upplifun gesta, minnka álag á samfélagið, bæta umhverfismál og tryggja sjálfbærni atvinnugreinarinnar til lengri tíma.
Þar er m.a. mælt fyrir um sérstakan styrktarsjóð sem úthlutar fjármunum til viðburðahalds og samfélags- og fegrunarverkefna.
Þá miða nokkrir liðir áætlunarinnar að því að bæta innviði sem nýtast farþegum skipanna. Þar á meðal eru fjölgun almenningssalerna, fjölgun bílastæða fyrir ferðaþjónustuaðila, hönnun móttökuhúss á Sundabakka og bættar gönguleiðir á hafnarsvæðinu.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
