„Það verður bara mjög rólegt og einfalt veður tiltölulega, fram að helgi. Svo verður aðeins hvassara um helgina, allhvass vindur og hlýnar aðeins,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, er mbl.is þýfgar hann um veðrið næstu daga sem er tíðindalítið eftir nýafstaðna áminningu veturs konungs um að hann sitji enn á köldum veldisstóli hvað sem hnatthlýnun líði.
„Þetta er bara mjög róleg vika og lítið að gerast í veðrinu hjá okkur,“ segir Teitur og spáin á síðu Veðurstofunnar styður þau orð en hún gerir ráð fyrir norðlægri átt með 3 til 10 metrum á sekúndu, dálítilli súld eða slyddu norðan- og austanlands, smáskúrum með suðurströndinni en bjartviðri á Vesturlandi.
Á morgun gerir stofan ráð fyrir austlægri átt, 3 til 10 metrum á sekúndu, skýjuðu með köflum og lítilli úrkomu. „Rigning af og til sunnanlands undir kvöld og bætir í vind við ströndina,“ segir í spá sem gerir ráð fyrir hitastiginu 2 til 6 gráðum yfir daginn.
