Með áverka eftir átökin: Drengurinn logandi hræddur

Málið gerðist í Mosfellsbæ. Til hægri má sjá áverka á …
Málið gerðist í Mosfellsbæ. Til hægri má sjá áverka á framhandlegg starfsmannsins á KFC eftir að maðurinn greip þéttingsfast í hann. Samsett mynd

Starfsmaður KFC í Mosfellsbænum segir enga furðu að lögregla kannist ekki við að maður, sem var vísað burt af staðnum í gær, hafi verið að elta börn þar sem engin skýrsla hafi verið tekin á vettvangi.

Starfsmaðurinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, er með klórför á framhandleggnum eftir manninn en hann sýndi ógnandi hegðun og neitaði að yfirgefa staðinn. 

Hann segist hafa beðið viðkomandi um að fara í kjölfar þess að ungur drengur kom upp að honum á skyndibitastaðnum í gær og óskaði eftir aðstoð út af manninum sem væri að elta sig.

Var drengurinn logandi hræddur.

Könnuðust ekki við ábendinguna

Greint var frá atvikinu í gær á Facebook-hópi Mosfellinga. Færslan vakti mikla athygli og leitaði mbl.is skýringa hjá lögreglu í morgun.

Lögreglan kannaðist við útkall á KFC í Mosfellsbænum en að sögn aðalvarðstjóra á stöð 4 var útkallið vegna manns sem sýndi ógnandi hegðun í garð starfsfólks.

Kannaðist varðstjórinn ekki við ábendinguna um að maðurinn hefði elt börn.

Hvorki rætt við drenginn né starfsfólk

Þegar starfsmaðurinn bað manninn, sem var bersýnilega ölvaður, um að yfirgefa staðinn brást hann ókvæða við og greip þéttingsfast um handlegg hans og kreisti.

Fleira starfsfólk kom honum þá til aðstoðar og þegar tilraunir þeirra báru ekki árangur hringdu þau á lögreglu.

Að lokum fór þó maðurinn út úr byggingunni en hann var samt sem áður enn að væflast um á lóðinni þegar lögreglu bar að garði, að sögn starfsmannsins, sem benti lögreglunni á manninn og var honum þá skutlað inn í bíl og og á brott.

Að sögn starfsmannsins ræddi lögreglan hvorki við starfsfólk né drenginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert