Náði mögnuðu myndskeiði af stjörnuhrapi

„Ég flutti hingað fyrir fjórum og hálfu ári og tók flugmannspróf við Keili í minningu bróður míns sem lést árið 2020,“ segir Claudia Janse van Rensburg í samtali við mbl.is eftir að hafa sent ritstjórn mbl.is myndband allrar athygli vert af norðurljósum og stjörnuhrapi yfir Njarðvík.

Claudia og Duncan Ras kærasti hennar eru komin langt að heiman, þau eru frá Jóhannesarborg í Suður-Afríku en bróðirinn, Emile Janse van Rensburg, sem lést langt fyrir aldur fram, 23 ára, var jarðhitafræðingur sem dreymdi um að ferðast til Íslands. Til þess entist honum ekki aldur en systir hans flutti til Njarðvíkur í minningu hans.

„Hann var yndisleg manneskja og hann langaði svo til Íslands og ég ákvað að láta hans draum rætast í sjálfri mér og kom hingað og lærði að fljúga,“ segir Suður-Afríkubúinn en Claudia er 25 ára gömul.

Claudia Janse van Rensburg flutti til Íslands í minningu bróður …
Claudia Janse van Rensburg flutti til Íslands í minningu bróður síns, var vaktstjóri hjá aðgerðastjórnstöð (OCC) flugfélagsins Play, býr í Njarðvík og tekur myndskeið af norðurljósum sem ekki eru auðséð í Suður-Afríku. Ljósmynd/Facebook

Getur alltaf séð sólina í Suður-Afríku

„Hann lærði jarðhitafræði í Suður-Afríku og hann ætlaði sér að taka meistaragráðuna sína á Íslandi en hann lifði það ekki,“ segir Claudia og trega gætir í rödd þessarar viðræðugóðu konu sem annars er gleðin uppmáluð.

„Ísland er magnað, þú getur alltaf séð sólina og fullt af trjám í Suður-Afríku en hér er allt, snjór og eldfjöll og alls konar veður og fólkið er svo yndislegt, okkur finnst hreinlega frábært að vera hérna. Í Suður-Afríku vilja allir sífellt bjóða þér heim í mat, Ísland er kannski ekki þannig en hér langar okkur að vera, okkur langar að eignast börnin okkar hér og bara vera hérna,“ segir Claudia sem starfaði hjá Play þar til flugfélagið beið nýlegt skipbrot.

Bróðirinn Emile sem aldrei fékk að sjá Ísland en systir …
Bróðirinn Emile sem aldrei fékk að sjá Ísland en systir hans upplifði það fyrir hann. Ljósmynd/Aðsend

Ættir að sjá svipinn á Íslendingum

„Íslendingar eru svo sterkir persónuleikar, þeir heilla mig mjög og allir eru að spyrja okkur af hverju við séum hérna,“ segir Claudia og hlær hjartanlega. Hana langar að komast að hjá Icelandair eftir að fyrri vinnuveitandi hennar hvarf af sviðinu. „En við sjáum bara hvað gerist, við höfum það ágætt núna segir hún en Duncan starfar sem vaktstjóri hjá flugþjónustufyrirtækinu Airport Associates.

Claudia og Duncan bera Íslandi og Íslendingum vel söguna og …
Claudia og Duncan bera Íslandi og Íslendingum vel söguna og kveða hið besta fólk. Glöggt er gests augað. Ljósmynd/Aðsend

Eftir heilt viðtal á ensku kemur loks upp úr kafinu að Suður-Afríkubúinn, sem talar reiprennandi ensku og hið hollenskuskotna tungumál afrikaans, talar barasta fínustu íslensku. „Já, en ég gæti aldrei bjargað mér alveg á íslensku,“ lýgur hún blákalt enda framburður hennar nær lýtalaus. „Íslendingar hafa reyndar verið duglegir að hjálpa mér með framburð en annað móðurmál mitt er afrikaans sem hefur mjög krefjandi r-hljóð eins og þið hafið til dæmis. En þú ættir að sjá svipinn á Íslendingum þegar ég sýni þeim texta á afrikaans,“ segir Claudia Janse van Rensburg að lokum og hlær sínum smitandi hlátri, ánægð með að hafa uppgötvað Ísland í minningu Emile bróður síns.

Ástfangið par frá Suður-Afríku kyssist undir náttúruundrinu sem Einar Benediktsson …
Ástfangið par frá Suður-Afríku kyssist undir náttúruundrinu sem Einar Benediktsson skáld vildi selja. Kannski óvitlaust. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert