Sala á jólabjór hefst í ríkinu á fimmtudaginn og á föstudaginn er J-dagurinn svokallaði. Þá er byrjað að dæla Tuborg-jólabjórnum á börum bæjarins klukkan 20.59. Tuborg hefur sem kunnugt er verið langvinsælasti jólabjórinn hér á landi um árabil og nú ber svo við að ný útgáfa af honum verður kynnt til leiks.
Sá kallast Tuborg Lille Jul og er þróaður af bruggmeisturum Ölgerðarinnar. Hann er léttari en forverinn og mun eflaust falla vel í geð hjá unnendum slíkra bjóra. Þeir vanaföstu þurfa þó alls ekki að hafa áhyggjur af því að sá gamli og góði sé á útleið, það er einfaldlega þannig að jólasnjórinn fellur tvöfalt í ár.
„Samstarf Ölgerðarinnar við Carlsberg, sem meðal annars á Tuborg-vörumerkið, er langt og farsælt og saga bjóra þeirra samofin íslenskri bjórmenningu. Eins og þjóðin þekkir hafa bjórarnir Tuborg og Carlsberg, sem eru bruggaðir hérlendis, verið meðal vinsælustu erlendu bjórvörumerkja hér á landi áratugum saman.
Carlsberg hefur undanfarin ár fylgst vel með þeim góða árangri sem við höfum verið að ná á bjórmarkaði og sérstaklega veitt vöruþróun okkar athygli. Því var ákveðið að taka sambandið á næsta stig í ár,“ segir Helga Kristín Gunnlaugsdóttir, vörumerkjastjóri Tuborg hjá Ölgerðinni.
Fyrr á þessu ári fékk Ölgerðin sérstaka gæðaviðurkenningu og var valin „besti samstarfsbruggari“ (best in brew) af Carlsberg Group. Í kjölfar þessa var ákveðið að fara í nýsköpunarverkefni undir Tuborg-vörumerkinu og varð niðurstaðan nýr jólabjór; Tuborg Lille Jul. Bjórinn er að sögn Helgu Kristínar ákveðin framlenging af Tuborg Julebryg nema hvað hann er lægri í áfengismagni, glútenfrír og verður fáanlegur í afar takmörkuðu upplagi.
Helga Kristín segir að undanfarin ár hafi sú þróun orðið að fólk leiti sífellt meira í léttari bjóra. Það eigi bæði við um létta bjóra og áfengislausa bjóra. Þetta er að hennar sögn í takt við auknar vinsældir sykurlausra drykkja á kostnað sykraðra og vaxandi heilsuvitund landsmanna.
„Við höfum í talsverðan tíma talið vera tækifæri fyrir Tuborg-jólabjórinn að bjóða einnig upp á léttari valkost samhliða hinum klassíska. Fyrr á árinu skellti Sturlaugur bruggmeistari í tilraunalögun á bjórnum og við höfðum hann tilbúinn fyrir stjórnendur Carlsberg að smakka þegar þau mættu í heimsókn. Það er skemmst frá því að segja að verkefnið fór í fulla gerjun og hér erum við.
Einn grunnþáttur í starfsemi Ölgerðarinnar er nýsköpun og vöruþróun og Tuborg Lille Jul er hluti af þeirri stoð, enda hefur Ölgerðin lengi verið í fararbroddi þegar kemur að fjölbreyttu vöruúrvali og nýjungum sem endurspeglar styrk fyrirtækisins á íslenskum drykkjarmarkaði. Það er ótrúlegur heiður fyrir okkur að vera treyst fyrir verkefni sem þessu,“ segir Helga Kristín.