Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra átti fund með Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra í gær þar sem farið var yfir mál sem varðar háar greiðslur embættis hennar til ráðgjafafyrirtækisins Intra.
Fundurinn var að frumkvæði ráðherra þar sem alvarleg staða ríkislögreglustjóra sem forstöðumanns var rædd.
„Ég fundaði með ríkislögreglustjóra í gær þar sem til umfjöllunar var auðvitað þetta tiltekna mál, viðskipti við þetta tiltekna fyrirtæki eða félag, Intra. Þar sem við ræddum málið og ræddum alvarlega stöðu hennar sem forstöðumanns,“ segir Þorbjörg í samtali við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund.
Og hver er staða hennar sem forstöðumanns?
„Ég legg alla áherslu á, og mér finnst bara ástæða til að nefna það, að ég vinn þetta mál auðvitað út frá lögum og reglum og kröfum stjórnsýslunnar þar um. Ég ætla að vinna þetta mál faglega,“ segir ráðherra.
„Það tekur ákveðinn tíma og meðan ég er að vinna málið þá held ég að ég sé ekkert að úttala mig neitt í smáatriðum um það. En eins og ég segi, ég kallaði ríkislögreglustjóra á minn fund til þess að ræða við hana, og ræða við hana alvarlega um stöðu hennar sem ríkislögreglustjóra.“
Þorbjörg sagði enn fremur að þetta væri í annað sinn sem hún færi yfir stöðu málsins með ríkislögreglustjóra.
„Ég sýni því allan skilning. Ég hef alveg heyrt, fundið og upplifað mjög sterkt hver viðbrögðin úti í samfélaginu eru, hvað varðar meðferð á opinberu fé,“ segir hún.
„Ég er líka meðvituð um það að almenningur vill að svona mál vinnist mjög hratt. Og ég vinn auðvitað eins hratt og ég get, en faglega og í samræmi við lög og reglur. Þannig að þetta er staðan sem stendur.“