Sigríður: „Ég geri athugasemdir við þessi vinnubrögð“

Það snjóaði hressilega í höfuðborginni í liðinni viku.
Það snjóaði hressilega í höfuðborginni í liðinni viku. mbl.is/Eyþór

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins, gerir athugasemdir við vinnubrögð Veðurstofu Íslands í tengslum við ofankomuna á höfuðborgarsvæðinu í liðinni viku. 

Undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag sagðist Sigríður vilja ræða um snjóadaginn mikla í síðustu viku og veðurspárnar „sem mér fannst vera ákaflega misvísandi og sæta frá mínum bæjardyrum séð nokkurri furðu“, sagði hún. 

„Eins og mál þróuðust á þessum mikla snjóadegi, þar sem afturkölluð var appelsínugul veðurviðvörun en látin standa gul veðurviðvörun þótt einhvern veginn öllum hefði mátt vera ljóst, eins og eftir hefur komið, að ekki væri meiri von á snjó.“

Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins.
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Karítas

Viðvörunin valdið tjóni

„Ég sá það haft eftir starfsmanni Veðurstofunnar á þessum tíma að það var látið að því liggja að veðurviðvörunin hefði verið látin halda sér til að forða fólki frá því að fara út á götur þar sem það ætti eftir að moka, virðulegur forseti. Ég geri athugasemdir við þessi vinnubrögð af hálfu Veðurstofunnar að einhverju leyti,“ sagði þingmaðurinn enn fremur. 

Hún sagði enn fremur að þessi veðurviðvörun hefði valdið nokkru tjóni í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu „þar sem ekki kyngdi niður meiri snjó eftir að veðurviðvörunin var gefin út. Ég vildi bara henda þessu hérna aðeins inn í umræðuna til umhugsunar fyrir þingið og viðeigandi stofnanir sem um ræðir.“

Mikilvægt að fá nákvæmar skammtímaspár

„Að út fari nákvæmar veðurspár, sem segja til um framvinduna til kannski 3-4 tíma, er mjög mikilvægt,“ sagði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við Morgunblaðið á fimmtudag í síðustu viku, í kjölfar veðursins.

„Samfélagið allt á þarna mikið undir og nú þarf umræðu um hvernig bæta megi spágerð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert