Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, segir koma til greina að setja aldurstakmark á notkun samfélagsmiðla fyrir börn.
Hann kveðst horfa til sambærilegra aðgerða og eru til skoðunar annars staðar á Norðurlöndum.
Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur, og Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hafa tilkynnt að þau vilji banna notkun ákveðinna samfélagsmiðla fyrir börn undir 15 ára aldri.
Dönsk stjórnvöld vilja hins vegar að foreldrar geti veitt börnum sínum sérstakt leyfi til að nota samfélagsmiðla undir 13 ára aldri.
„Við þurfum að taka inn samfélagsmiðlana. Núna er aðalumræðan á Norðurlöndunum um hvort það eigi að banna samfélagsmiðla á ákveðnum aldri. Ég er að skoða þetta og ætla að vera samferða þeim á Norðurlöndunum,“ segir Guðmundur Ingi.
Nákvæm útfærsla og tímasetning á samfélagsmiðlabanninu liggur ekki fyrir.
Stjórnvöld á Norðurlöndunum hafa ekki ákveðið hvaða miðlar falla undir bannið. Stjórnvöld í Ástralíu stefna að því að innleiða bann á notkun samfélagsmiðla á borð við Facebook, Snapchat, TikTok og Youtube fyrir börn undir 16 ára.
