Stolið frá börnum í Egilshöll: „Ofboðslega sár“

Skautadeildin er með aðsetur í Egilshöll.
Skautadeildin er með aðsetur í Egilshöll. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikilvægum hlutum úr búnaði skautadeildar Aspar hefur verið stolið. Búnaðurinn er mikilvægur hluti af starfi Aspar sem er m.a. skautadeild fyrir börn með sérþarfir. 

Helga Kristín Olsen, yfirþjálfari skautadeildarinnar, segir málið fyrst og fremst leiðinlegt fyrir börnin sjálf þó svo að fjárhagslegt tjón af stuldinum sé lítið. 

Meðal þess sem var stolið voru framvindubækur iðkenda, límmiðar, töflutúss, sápukúlur, pennaveski með stjörnustimplum og stangir og festingar á þær.

Leiðinlegt

„Þetta er ekkert brjálæðislegt fjárhagslegt tjón en bara leiðinlegt og þau voru ofboðslega sár,“ segir Helga.

„Það var bara búið að taka límmiðana þeirra og þau spyrja bara: Hvar eru límmiðarnir mínir?“

Skautadeild Aspar er hluti af íþróttafélaginu Ösp sem hefur verið leiðandi í skautaþjálfun barna sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að stunda æfingar hjá almennum íþróttafélögum.

Félagið sérhæfir sig í þjálfun einstaklinga sem þurfa aukinn stuðning til íþróttaiðkunar. 

Höfðu verið að safna límmiðum

Skautadeildin er með aðsetur í Egilshöllinni í Grafarvogi. Helga segir að þegar börn mættu á æfingu á sunnudag hafi búnaðurinn verið horfinn.

Búnaðurinn var geymdur í kistu í æfingasal skautadeildarinnar. Hann var síðast notaður miðvikudaginn 22. október og þá var allt á sínum stað. 

„Það sem allir voru sárastir yfir er að við höfum verið að safna límmiðum og höfum fengið gefins slíka límmiða. Við þjálfararnir og foreldrar höfum verið að kaupa límmiða til þess að gefa þeim í lok dags en það er bara meirihlutinn af því horfinn,“ segir Helga. 

Hún segir skautabækurnar mikilvægar fyrir iðkendur þar sem þar halda þau utan um framvindu sína. 

Eftirlitsmyndavélar takmarkaðar

Helga segir að aðeins lítill hluti búnaðarins hafi skilað sér. Eftirlitsmyndavélar séu takmarkaðar á svæðinu og því erfitt að reyna að hafa uppi á þeim sem tóku búnaðinn. 

Aðspurð segir Helga að þetta sé í fyrsta sinn sem búnaði sé stolið frá félaginu. Hins vegar sé mikill umgangur ungmenna um húsið sem hafi stundum valdið truflunum á æfingum. 

„Við erum ekki að ásaka neinn um neitt. Ef við fáum þetta til skila án allra eftirmála verðum við mjög ánægð,“ segir Helga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert