Ingibjörg Einarsdóttir, móðir 14 ára drengs sem glímir við alvarlegan fíknivanda og var nýlega var innritaður í fíknimeðferð á meðferðarstofnun í Suður-Afríku, segist nú loks hafa von í brjósti um að sonurinn nái bata.
Hún hefur góða tilfinningu fyrir meðferðarstarfinu úti og fékk í hendurnar skýra og greinargóða meðferðaráætlun fyrir drenginn, sem hún segir töluvert faglegra heldur en hún hefur átt að venjast hér heima.
„Það er búið að byggja teymi í kringum hann af félagsráðgjöfum, sálfræðingum og fíkniráðgjöfum. Þannig þetta er talsvert öðruvísi umgjörð en hérna heima,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is, en hún hefur átt í mjög góðum samskiptum við ráðgjafana eftir að drengurinn var innritaður á stofnunina fyrir tveimur vikum.
Læknateymi heldur utan um lyfjagjöfina hans og hjúkrunarfræðingar eru starfandi á stofnuninni. Þá stendur honum til boða að hitta geðlækni ef endurskoða þarf lyfin hans.
Ingibjörg fékk reyndar áfall þegar hún opnaði tölvupóstinn sinn við lendinguna í Keflavík á dögunum og sá að sonurinn hafði ætlað að reyna að strjúka, líkt og hann hefur gert í öllum þeim meðferðarúrræðum sem hann hefur verið vistaður í á Íslandi. En það var tekið á því strax.
„Þá voru teknir allir skórnir hans og sett á hann skygging, þannig það eru tveir sem elta hann alltaf. Hann fær aldrei að vera einn á meðan staðan er þessi, bara eins og gert er inni á geðdeildum. Auðvitað líður honum illa og það er erfitt vera svona langt í burtu en þau eru að tækla allt öðruvísi en hérna heima.“
Fyrstu þrjár vikurnar í meðferðinni mega börnin ekki hafa samskipti við utanaðkomandi aðila, en foreldrarnir fá reglulega upplýsingar um stöðu og líðan í gegnum ráðgjafa.
„Þessar þrjár vikur eru til þess að börnin sjái að meðferðaraðilarnir grípi þau. En ég hef alltaf aðgang að félagsráðgjafanum hans og ráðgjafanum. Ég átti símatímanum með félagsráðgjafanum á föstudag og laugardag. Hún er ekkert að sykurhúða neitt og þetta er erfitt núna. En hann er loksins farinn að taka þátt. Þau vilja líka fá skólann inn strax og hún var að biðja um upplýsingar um það.“
Líkt og mbl.is hefur greint frá voru í fyrir á meðferðarstofnuninni tvö önnur íslensk börn. Móðir 17 ára drengs sem hefur verið úti í um þrjá mánuði hefur lýst því í viðtali hér á mbl.is hve miklar jákvæðar breytingar hafa orðið á honum á skömmum tíma. Sá drengur kom hlaupandi til Ingibjargar þegar hún var að kveðja sinn dreng úti.
„Ég held ég hafi aldrei fengið jafn fast knús á ævinni. Þá brotnaði ég niður og fór að hágráta. Hann sagði við mig að ég væri að gera rétt. Þetta væri góður staður. Hann sagðist ætla að passa hann fyrir mig.“
Hún viðurkennir að það sé mjög erfitt að fá ekki að heyra í syninum í þrjár vikur, en hún má heyra í honum 10. nóvember. „Það er svo furðulegt því það er afmælisdagur systur minnar heitinnar.“
Ingibjörg og sonur hennar fóru út ásamt öðrum mæðginum. Sá drengur er einnig 14 ára og hefur glímt við fíknivanda. Þær settu af stað söfnun til að koma drengjunum út, enda töldu þær þá ekki geta beðið lengur eftir úrræði við hæfi hérna heima. Líf þeirra væru í húfi.
Ferðalagið frá Íslandi til Suður-Afríku gekk þokkalega, en Ingibjörg segir þó ástandið á syninum hafa verið slæmt og bakþankar hafi læðst að henni. Þó aðeins í skamman tíma.
„Í flugvélinni þá hugsaði ég hvað ég væri búin að koma okkur út í. En eftir fyrstu dagana í Jóhannesarborg þá áttaði ég mig á að þetta væri eina vitið. Ég hefði bara verið föst með hann í stórhættulegum aðstæðum á einhverjum biðlista. Og biðlista eftir hverju? Bara þessu sama kjaftæði,“ segir Ingibjörg.
„Það þarf svo mikið að breyta hugmyndafræðinni hérna. Hugmyndafræðin er svo brotin. Ef Suður-Afríka getur haft inni læknateymi, félagsráðgjafa, sálfræðinga, fíkniráðgjafa, sporavinnu og skóla, af hverju getum við það þá ekki? Það er bara einhver veggur á milli heilbrigðiskerfisins og þess félagslega sem þarf að brjóta niður.“
Ingibjörg fékk mjög ítarlega meðferðaráætlun fyrir son sinn ásamt skipulagi fyrir hvern og einn dag. Hún segir þetta frábært upp á fyrirsjáanleika að gera, sérstaklega fyrir börnin sem þurfa á því að halda. Hún er sannfærð um að hún hafi gert rétt.
„Það er loksins sem ég hef einhverja von. Ég er búin að vera í algjöru vonleysi. Þrátt fyrir að mér finnist þetta ógeðslega erfitt, að vita af honum svona langt í burtu og ekki líða vel, en mér finnst ég vera búin að koma honum í skjól.“
Hún og mæður hinna drengjanna á sem er í Suður-Afríku eru strax farnar að hugsa hvernig þetta verður þegar þeir koma heim, bæði hvað eftirmeðferð varðar og ef það það kemur bakslag.
„Þetta er svo galið að við erum farnar að ræða hvernig við sjálfar getum komið á fót einhverju úrræði. Okkur hryllir við að þurfa að eiga að samskipti við Barna- og fjölskyldustofu,“ segir Ingibjörg en tekur fram að Barnaverndin í Mosfellsbæ hafi alltaf reynst þeim gríðarlega vel. Það sé ekki við þau að sakast hvað úrræðaleysi varðar.
Ingibjörg hefur sagt sögu sonar síns hér á mbl.is og frá þrotlausri baráttu sinni fyrir því að koma honum í langtímameðferðarúrræði á Íslandi. Eftir að hafa mætt algjöru úrræðaleysi af hálfu Barna- og fjölskyldustofu sér hún ekki annan kost í stöðunni en að fara með drenginn úr landi.
Ekkert langtímameðferðarheimili fyrir drengi hefur verið starfrækt hér á landi í eitt og hálft ár, eða frá því Lækjarbakka var lokað vegna myglu í apríl í fyrra. Drengir sem lokið hafa hefðbundinni tólf vikna meðferð, sem nú fer fram á meðferðarheimilinu Blönduhlíð á Vogi, hafa því ekki komist í framhaldsmeðferð hér á landi. Sonur Ingibjargar er einn þeirra.