„Þeir lokuðu einfaldlega bara sjoppunni“

Að greiða húsnæði sitt mörgum sinnum nær auðvitað ekki nokkurri …
Að greiða húsnæði sitt mörgum sinnum nær auðvitað ekki nokkurri átt að sögn Guðbrands. Ljósmynd/Colourbox

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, segir að „íslenska rúllettan“ haldi áfram og vísar með orðum sínum að því uppnámi sem dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu svokallaða hafi sett húsnæðismarkaðinn í.

Þetta kom fram í máli Guðbrands á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.

„Dómurinn í vaxtamálinu svokallaða hefur sett húsnæðismarkaðinn í algjört uppnám. Viðbrögð bankanna við þessum dómi, sem átti að auka skýrleika, hafa komið á óvart. Þeir lokuðu einfaldlega bara sjoppunni og fólk sem hafði fengið vilyrði um lán eða hugðist taka lán fær það ekki lengur. Það eina sem heyrist frá Seðlabanka Íslands enn sem komið er er að heimila ungu fólki, sem stenst engan veginn greiðslumat, að taka 90% lán í staðinn fyrir 85%,“ sagði þingmaðurinn.

Ótrúleg staða að vera í

Hann bætti við að þetta væri ótrúleg staða að vera í. Almenningur gæti engan veginn náð utan um það hvers vegna ekki væri hægt að taka verðtryggð lán. Hann sagði að landsmenn hlytu að fara að spyrja sig að því hvort þetta væri ekki orðið gott.

„Hversu lengi á að bjóða fólki upp á svona vitleysu? Er þetta ekki fullreynt? Við höfum nú í áratugi búið við húsnæðismarkað sem er í engu samræmi við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Að greiða húsnæði sitt mörgum sinnum nær auðvitað ekki nokkurri átt. Við hljótum að gera þá kröfu að sitja við sama borð og almenningur í samanburðarlöndum. Hvers vegna eru stýrivextir á Íslandi þrefalt hærri en annars staðar? Og hvers vegna þurfa raunvextir að vera svona háir á Íslandi? Raunvextir hafa farið hækkandi eftir því sem verðbólga hefur farið niður á við og það færir fjármagn frá skuldurum til fjármagnseigenda,“ sagði Guðbrandur.

Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar.
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Arnþór

Vaxtaviðmið nýjasta orðið

Hann bætti við að nýjasta orðið sem hefði verið kynnt til sögunnar væri orðið vaxtaviðmið og nú biðu allir spenntir eftir því hvert það verði því að það myndi ráða örlögum margra.

„Virðulegur forseti. Rússneska rúllettan, eða eigum við að segja íslenska rúllettan, heldur því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert