Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins og fyrrverandi varaformaður Viðreisnar, gagnrýnir stefnu stjórnvalda í húsnæðismálum og segir hana leiða til aukinnar ríkisvæðingar markaðarins.
Þorsteinn birti langa færslu á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann veltir fyrir sér hvað vaki fyrir stjórnvöldum í aðgerðum sínum á húsnæðismarkaði.
Hann varar við að skattahækkanir á leigutekjur og söluhagnað dragi úr framboði á almennum leiguíbúðum og hækki leiguverð.
Segir hann að opinber stuðningur beinist nú nær alfarið að leigumarkaði fremur en aðstoð við íbúðakaup, sem geti haft neikvæð áhrif á framtíðarafkomu tekjulægri heimila.
„Stjórnvöldum virðist sérstaklega í nöp við fjárfestingar einstaklinga í húsnæði til útleigu. Hækka á skatta vegna söluhagnaðar húsnæðis og leigutekjur. Hvoru tveggja má ætla að hafi áhrif til fækkunar leiguíbúða á almennum markaði og hækkunar á leiguverði og þar með verðbólgu. Vert er að hafa í huga að þessi hluti leigumarkaðar hefur verið nokkuð stöðugt hlutfall af húsnæðismarkaði undanfarna tvo áratugi. Auk þess eru þessir leigusalar ólíklegri til að vísitölutengja leigusamninga og líklegri til ívilnandi leigu en leigufélög. Hvað vakir fyrir stjórnvöldum að þrýsta þessum hluta út af markaði?“ spyr Þorsteinn.
