„Síðastliðinn föstudag kom í ljós að nokkrir einstaklingar höfðu nýtt sér tímabundinn veikleika í nýlegri kerfisuppfærslu RB [Reiknistofu bankanna] sem varð til þess að við tilteknar aðstæður gátu þeir millifært af eigin reikningum án þess að innstæða væri til staðar.“
Svo segir í tilkynningu Landsbanka Íslands um alvarlegt mál sem lögregla hefur nú fengið til rannsóknar en Landsbankinn hefur, eftir því sem enn fremur er greint frá, gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari brot.
Greinir bankinn frá því, og Rúnar Pálmason upplýsingafulltrúi þar staðfestir við mbl.is, að tjón Landsbankans vegna málsins gæti numið 200 milljónum króna. Þó sé unnið að því að endurheimta féð og gæti upphæðin því lækkað. Tekur Landsbankinn fram að viðskiptavinir bankans hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna atviksins.
Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, staðfestir í samtali við mbl.is að eitt tilvik sambærilegs máls hafi komið upp þar í bankanum þar sem upphæðin nemi tíu milljónum króna.
„Þetta er ekki tjón fyrir okkar viðskiptavini, þarna eru einstaklingar sem geta allt í einu gert eitthvað sem þeir eiga ekki að geta gert og þeir misnota það,“ segir Haraldur og tekur það fram að veikleikinn snúi ekki beinlínis að Arion banka í þessu tilfelli.
Lögregla rannsakar nú málið að sögn upplýsingafulltrúanna beggja.
