Samgöngur röskuðust verulega með þeirri miklu snjókomu sem var á sunnanverðu landinu síðastliðinn þriðjudag. Tiltekið hefur verið hve margir ökumenn voru á vanbúnum bílum, til dæmis enn á sumardekkjum.
Þar ber að taka fram að þegar þetta gerðist, 28. október, var löglegt tímabil nagladekkjanotkunar ekki gengið í garð. Það hefst 1. nóvember og er til 14. apríl. Utan þess tíma skulu bílar vera á ónegldum dekkjum, nema hvað gerð er sú krafa til ökumanna að bílar þeirra séu búnir í samræmi við aðstæður hvers tíma.
Áður, eða fram til 2004, gekk naglatíminn í garð þann 15. október og var fram í miðjan apríl.
„Hér hafa þúsundir bíla farið í gegn hjá okkur á síðustu dögum. Þetta er einhver sú mesta törn í dekkjaskiptum sem okkar menn hafa kynnst,“ segir Hermann Elí Hreinsson, forstöðumaður bílaþjónustu hjá N1.
Fyrirtækið starfrækir alls sjö hjólbarðaverkstæði á höfuðborgarsvæðinu og þar hefur mikið verið umleikis að undanförnu. Nokkrir forsjálir höfðu lokið dekkjaskiptum fyrir hvellinn mikla en eins og verða vill fór allt á snúning þegar jörð var orðin fannhvít og færð spillt.
„Ég gæti trúað að um 60% þeirra bíleigenda sem til okkar koma velji nagladekkin, sem eru auðvitað það sem best dugar í hálku og þegar glæra liggur yfir götum. Annars eru sveiflur í því hvernig dekk fólk velur og reynsla til dæmis frá síðasta vetri hefur alltaf mikið að segja,“ tiltekur Hermann.
Hann segir starfsmenn á dekkjaverkstæðunum miðla af sinni þekkingu til viðskiptavina en hvernig dekk þurfi ráðist af aðstæðum hvers og eins.
„Fólki sem er á ferð eldsnemma á morgnana áður en götur hafa verið saltaðar og geta því verið hálar hentar mögulega best að vera með neglda hjólbarða. Sjálfur fer ég gjarnan til vinnu laust fyrir klukkan átta á morgnana þegar færi er komið í lag og búið að saltbera. Þá er ekki sama þörf á að vera á nagladekkjum og hjá þeim sem fara fyrr af stað.
Annars er engin algild regla í því og ónegld heilsársdekk standa fyrir sínu. Sé fólk í reglulegum ferðum á Reykjanesbraut eða um Hellisheiði held ég að nagladekk séu þó eina vitið,“ segir Hermann Elí.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
