Undarleg ró yfir Kópavogi

Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag, …
Nóg var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag, 133 mál skráð í kerfi hennar á tímabilinu frá klukkan 05 til 17, en yfir Kópavogi hvíldi sérstök ró, þar tíundaði tíðindamaður lögreglu engin verkefni önnur en eftirlit og aðstoð við borgarana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á tímabilinu frá klukkan 05 til 17 í dag voru 133 mál skráð í kerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og nutu tveir gestir beinleika lögreglu í fangageymslum um það leyti sem fjölmiðlar fengu yfirlit um helstu verkefni dagsins í kvöld.

Í miðborginni var tilkynnt um innbrot og þjófnað í verslun í hverfi 101 þar sem gerandi var ókunnugur og er málið í rannsókn lögreglu. Í hverfi 105 féll knapi rafhlaupahjóls, eða rafskútu sem einnig er haft um tæki þessi, af færleik sínum og hlaut áverka á höfði.

Var hann fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku til skoðunar. Í Skandinavíu hefur banaslysum af völdum farkosta þessara fjölgað undanfarin ár og Norðmenn til dæmis bætt refsiákvæðum í lög sín af þeim sökum.

Tíðindalaust á Kópavogsvígstöðvunum

Í umdæmi lögreglustöðvarinnar í Hafnarfirði, stöðvar númer tvö, var tilkynnt um innbrot og þjófnað á vinnustað og einn handtekinn en veitt frelsi að lokinni yfirheyrslu. Þá var tilkynnt um eld í bifreið í Garðabænum, sem heyrir undir lögsögu stöðvarinnar í Hafnarfirði, og urðu þar minni háttar skemmdir.

Lögreglumenn á stöð þrjú í Kópavoginum voru við almennt eftirlit og veittu borgurunum aðstoð í dag, engin sérstök mál tíunduð þar í bænum í greinargerð lögreglu.

Í umdæmi lögreglustöðvar númer fjögur sem heldur uppi friði og íslenskum lögum í Árbæ, Grafarvogi, Grafarholti og þar um slóðir var tilkynnt um skemmdarverk, innbrot og þjófnað á vinnustað í Grafarvogi, gerandi þar ókunnur.

Ökumaður var þá stöðvaður í Grafarholti og reyndist sviptur ökuréttindum. Mál hans var afgreitt með sekt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert