Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir 4,8 milljarða króna afgangi af aðalsjóði á næsta ári en undir aðalsjóð, eða A-hluta rekstursins, fellur hefðbundin starfsemi borgarinnar er lýtur fyrst og fremst að lögbundnum verkefnum og er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af skatttekjum.
Fyrri umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2026 og næstu fimm ára til 2030 fer fram í borgarstjórn í dag.
Í útkomuspá vegna ársins 2025 er nú gert ráð fyrir 382 milljóna króna hagnaði en samkvæmt núgildandi fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 1,3 milljarða afgangi.
Í fimm ára áætlun er gert ráð fyrir að hagnaður A-hluta fari stigvaxandi frá næsta ári og nemi 10,6 milljörðum árið 2030.
Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri á móti tekjum nemi 7,7% árið 2026 en í fimm ára áætlun er reiknað með að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum verði um og við 8%.
Til útskýringar þá gefur veltufé frá rekstri til kynna hvað borgin á aflögu í afborganir skulda og fjárfestingar.
Í útkomuspá 2025 er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum verði umfram upphaflega áætlun ársins og nemi 7,9%.
Fimm ára áætlun gerir ráð fyrir að öll markmið A-hluta samkvæmt gildandi fjármálastefnu verði uppfyllt á áætlunartímabilinu.
Gert er ráð fyrir að heildarafkoma A- og B-hluta borgarinnar verði 14,6 milljarðar króna á næsta ári.
Í B-hluta eru fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem borgin á minnst helming eignarhlut í.
Í A- og B-hluta saman er veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum áætlað 15,5% á næsta ári eða 48,4 milljarðar króna.
Heildarfjárfesting er áætluð 74,9 milljarðar árið 2026. Árið 2026 er gert ráð fyrir að lántaka ársins nemi 53 milljörðum króna og að handbært fé í árslok verði 31,3 milljarðar króna.
Gert er ráð fyrir að þriggja ára jafnvægisviðmið sveitarstjórnarlaga verði jákvætt allt áætlunartímabilið og skuldaviðmið vel undir 150% viðmiði sveitarstjórnarlaga.
Á næsta ári er áætlað að eignir A- og B-hluta borgarinnar samkvæmt efnahagsreikningi verði komnar yfir 1.000 milljarða króna með 470 milljarða króna í eigið fé.
Gert er ráð fyrir að eignir A-hluta nemi 326,8 milljörðum króna í lok árs 2026 og að eiginfjárhlutfall nemi 30%. Hreinar skuldir sem hlutfall af tekjum eru áætlaðar 82% árið 2026 og gert er ráð fyrir að þær fari lækkandi á áætlunartímabilinu.
Skuldaviðmið A-hluta er áætlað 77% sem er með því lægsta á höfuðborgarsvæðinu.
„Þegar við í meirihlutanum tókum við stjórn borgarinnar, nokkuð óvænt, í febrúar síðastliðnum vissum við að okkur hafði verið falið mikið ábyrgðarverkefni við fjármálastjórnun Reykjavíkurborgar,” er haft eftir Heiðu Björgu Hilmisdóttur borgarstjóra í tilkynningu borgarinnar.
„Það hefur skipt okkur miklu máli að setja í forgang uppbyggingu í þágu barna og barnafjölskyldna. Á sama tíma höfum við lagt á það gríðarlegra áherslu að gæta mikils aðhalds við reksturinn. Árangur okkar birtist með skýrum hætti í þessari fyrstu fjárhagsáætlun sem við fylgjum hér úr hlaði. Rekstur borgarinnar er í góðu jafnvægi. Aðhalds er gætt. Ráðdeild er í fyrirrúmi,” segir hún enn fremur í tilkynningunni.