Vísað úr landi: Vildi skoða kirkjur og fara í gufu

Maðurinn greindi frá því að hann væri kominn til landsins …
Maðurinn greindi frá því að hann væri kominn til landsins til þess að skoða kirkjur og fara í gufuböð. Aðspurður gat hann þó ekki tilgreint neinar kirkjur sem hann vildi skoða og vildi ekki veita lögreglu nánari upplýsingar um dvöl sína. Myndin er úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum frá því í sumar um að vísa albönskum ríkisborgara úr landi.

Maðurinn sagðist vera kominn til landsins til þess að skoða kirkjur og fara í gufuböð.

Aðspurður gat hann þó ekki tilgreint neinar kirkjur sem hann vildi skoða og vildi ekki veita lögreglu nánari upplýsingar um dvöl sína.

Úrskurður kærunefndar lá fyrir í lok október en maðurinn krafðist þess að ákvörðun lögreglunnar yrði felld úr gildi og honum heimilt að koma til landsins. Fram kemur að maðurinn hafi komið til Íslands 28. júní 2025 með flugi frá Búdapest í Ungverjalandi. Degi síðar var honum vísað frá landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að manninum hafi verið vísað frá Íslandi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum kemur fram að maðurinn hafi ekki getað leitt líkur að tilgangi dvalar sinnar.

Lögreglan kölluð til vegna tungumálaörðugleika

Samkvæmt skýrslu lögreglu hafði maðurinn verið í skoðun hjá tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli. Lögregla hafði verið kölluð til en vegna tungumálaörðugleika hafi hún boðið manninum til viðtals í aðstöðu lögreglu. Manninum var kynntur réttur sinn til að leita sér aðstoðar lögmanns á eigin kostnað.

Maðurinn greindi frá því að hann væri kominn til landsins til þess að skoða kirkjur og fara í gufuböð. Aðspurður gat hann þó ekki tilgreint neinar kirkjur sem hann vildi skoða og vildi ekki veita lögreglu nánari upplýsingar um dvöl sína. Maðurinn sagði að allar upplýsingar væru í farsíma sínum án þess að sýna fram á það.

Þekkti engan á Íslandi

Þá segir að maðurinn hafi ætlað að dvelja á Íslandi til 2. júlí 2025 en hann kvaðst þó ekki muna á hvaða hóteli hann myndi gista. Aðspurður kvaðst maðurinn vera að ferðast til útlanda í fyrsta skipti og að Ísland hafi orðið fyrir valinu sökum kalds loftslags. Hann kvaðst ekki þekkja neinn á Íslandi.

Aðspurður kvaðst maðurinn starfa við pípulagningar í heimalandinu og gerði lögreglu grein fyrir tekjum sínum. Fram kemur að lögreglu hafi grunað að maðurinn bæri fíkniefni innvortis og var hann fluttur í röntgenmyndatöku en ekki fundust fíkniefni við myndatökuna.

En þar sem tilgangur dvalar mannsins var óljós auk þess sem hann virtist ekki vita hvað hann ætlaði að gera á landinu og gat ekki sýnt fram á það hafi manninum verið frávísað á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Mótmælti ákvörðuninni

Sem fyrr segir kærði maðurinn ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 29. júní 2025. Hann mótmælti því að hún hefði ekki leitt nægar líkur að tilgangi dvalar. Hann hefði haft nægt fjármagn og sýnt fram á gildan farmiða úr landi að nýju.

Hvergi í gögnum málsins hefði komið fram að lögregla hefði rannsakað hvort maðurinn hefði greiðslukort sem veitti honum aðgengi að reiðufé.

Maðurinn sagði að rannsókn lögreglunnar hefði tekið um 30 mínútur og taldi að í ljósi verulegra annmarka rannsóknarinnar bæri að fella ákvörðunina úr gildi og heimila honum landgöngu.

Skilyrði til frávísunar uppfyllt

Í niðurstöðukafla kærunefndar útlendingamála segir að þar sem maðurinn sé albanskur ríkisborgari þurfi hann ekki vegbréfsáritun til landgöngu á Íslandi, enda sé hann handhafi vegabréfs með lífkennum.

Vísað er til þess sem kom fram í skýrslu lögreglu að maðurinn hefði greint frá því að vera kominn til landsins sem ferðamaður í þrjá daga. Hann hefði aðspurður sagt að hann ætlaði að skoða kirkjur og fara í gufuböð. Hann hefði þó gert takmarkaða grein fyrir fyrirhugaðri dvöl sinni og ekki viljað veita lögreglu nánari upplýsingar.

Þá hefði hann ekki getað gert grein fyrir gististað sínum. Aðspurður kvað kærandi allar upplýsingar vera vistaðar á farsíma hans en hann hefði þó ekki getað sýnt fram á það, þrátt fyrir fyrirspurnir lögreglu.

„Meðal meginskilyrða 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, er framlagning gagna sem sýna fram á tryggt húsnæði. Kærandi hafi ekki getað sýnt fram á framangreint og er skilyrðum reglugerðarákvæðisins því ekki fullnægt. Með vísan til framangreinds hefur kærandi ekki getað leitt líkur að þeim tilgangi sem hann gaf upp fyrir dvölinni. Voru skilyrði til frávísunar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga því uppfyllt,“ segir í niðurstöðu kærunefndarinnar.

Athugasemdir við störf lögreglu

Kærunefndin gerði jafnframt athugasemdir við störf lögreglu.

Bent er á að hin kærða ákvörðun fjalli um réttindi og skyldur kæranda í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Í ákvörðuninni komi fram að manninum væri vísað frá landinu á þeim lagagrundvelli sem hér hafi verið fjallað um.

„Að öðru leyti kom ekki fram í ákvörðuninni hvaða atvik er vörðuðu kæranda hefðu leitt til þeirrar niðurstöðu eða þau meginsjónarmið sem voru ráðandi við töku ákvörðunarinnar, að undanskildum þeim athugasemdum sem koma fram í ákvörðuninni um að kærandi hafi ekki getað sýnt fram á tilgang dvalar. Verður því að líta svo á að hinni kærðu ákvörðun hafi ekki fylgt rökstuðningur í skilningi 22. gr. stjórnsýslulaga. Bar því að leiðbeina kæranda um þá heimild sína samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga að fá slíkan rökstuðning eftir á. Í hinni kærðu ákvörðun var ekki fyrir að finna slíkar leiðbeiningar. Að þessu leyti var hin kærða ákvörðun ekki í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Framangreindur annmarki hefur þó ekki áhrif á niðurstöðu málsins,“ segir í úrskurði kærunefndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert